Val á maka

Mörg okkar eiga misheppnuð sambönd að baki og margir skipta um maka að minnsta kosti einu sinni á ævinni og jafnvel oftar. Að verða ástfanginn er töfrum líkjast og tilfinningarnar sem maður upplifir í kjölfarið eru yndislegar. Allt virðist vera svo rétt og fullkomið þegar maður er ástfanginn. Síðan verður þessi hamslausa hrifning að „sambandi“ og við förum niður á jörðina aftur og þurfum saman að takast á við þrautir lífsins. Því miður eyðir fólk oft litlum tíma í að hugsa um hvað skiptir máli við val á maka. Þó að það virðist kjánalegt þá má líkja vali á maka við að kaupa sér íbúð eða bíl. Við kaupum okkur sjaldan íbúð eða bíl án þess að hugsa okkur verulega um hvað skiptir okkur máli við þessi kaup. Það að hugsa um hvað skiptir okkur máli eykur líkurnar á að við verðum ánægð með þau kaup sem við gerum.

Við þurfum að undirbúa okkur og velta fyrir okkur hvað skiptir okkur máli í sambandi. Reynslan getur kennt okkur hvað skiptir okkur máli og við getum notað hana til að undirbúa okkur fyrir næsta samband. Með því að hafa góða hugmynd um að hverju þú ert að leita þá eykur þú líkurnar á að enda í sambandi með manneskju sem er hamingjuríkt, gefandi og endist ævilangt. Núna er ekki verið að tala um að láta lostann ráða för í vali á maka eða efnislega þætti (eins og ræður oftast för þegar við erum að skemmta okkur undir áhrifum áfengis).  Eins og til dæmis „konan mín á að vera ljóshærð, um 170 cm á hæð og 60 kg, fíngerð og fegurðardís“ eða „maðurinn minn þarf að vera yfir 180 cm á hæð, ríkur, íþróttamannslega vaxinn og dökkhærður“. Hvað segja þessir þættir til um hvort að fólk eigi samleið? Þú getur verið með manni sem er ótrúlega myndarlegur og auðugur en hann getur verið algjör asni. Það getur því verið betra að velta fyrir sér „hvaða eiginleikar og gildi skipta mig máli? (umhyggjusemi, umburðarlyndi, réttsýni, víðsýni, og fjölskyldulíf) Eigum við til dæmis sameiginleg áhugamál? Gildi gæti verið, skiptir fjölskyldan þig miklu máli og því viltu fjölskyldumann. Ef þig langar að eignast börn, þá þarf maka þinn að langa það líka. Vissulega skiptir líkamleg hrifning eða „chemistry“ máli en það getur komið þér á óvart hversu mikið þú getur laðast að manneskju ef þið eigið margt sameiginlegt. Það er því mikilvægt að passa að festast ekki í efnislegum þáttum og gleyma „líminu“ sem heldur sambandinu saman. Það skiptir því kannski ekki máli að viðkomandi er ekki yfir 180 cm á hæð ef þið eigið margt sameiginlegt. Það gæti jafnvel komið þér á óvart að þú getur orðið mjög hrifin af manneskju þó svo að hún sé 170 cm á hæð.

Farsæl sambönd virðast byggjast á því að manneskjur eru líkar hvor annarri og niðurstöður rannsókna eru að sýna það. Í rannsókn Morrey, Kito og Ortiz (2011) var skoðað hvort að tengsl væru á milli þess að telja samband sitt gott og að finnast maður líkur maka sínum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þátttakendur sem töldu sig líkjast maka sínum mátu samband sitt betra en þeir sem töldu sig ekki líkjast maka sínum.  Niðurstöður fleiri rannsókna hafa leitt í ljós að ef maður telur sig líkan maka sínum tengist það því að finnast að maki sinn skilji sig, kunni að meta sig, hærra sjálfsáliti og finna minna fyrir einmanaleika (Murray, Holmes, Bellavia, Griffin og Dolderman, 2002; Murray, Holmes og Griffin, 1996; Karylowski, 1976; Bell, 1993). Niðurstöður rannsókna Gonzaga, Campos og Bradbury (2007) voru einnig á þessa leið. Pör sem eru með líkan persónuleika (til dæmis bæði félagslynd) og líkar tilfinningar (til dæmis eru báðir aðilar opnir með tilfinningar sínar og líðan í sambandi) voru almennt  ánægðari í sambandi sínu. Þetta gefur því til kynna að þegar pör deila svipuðum skoðunum og gildum, eiginleikum, áhugamálum og hafa svipaðan bakgrunn er líklegra að þau séu hamingjusöm í sambandinu. Ef þú ert að lesa þessa grein og ert í sambandi, gæti verið að þú hugsir með þér, ég og maðurinn/konan minn/mín eigum ekkert sameiginlegt. Ekki örvænta, þið eigið sjálfsagt eitthvað sameiginlegt en það gæti verið að þið hafi misst sjónar á því. Fólk sem er í sambandi er alltaf ólíkt hvort öðru að einhverju leyti, það er óhjákvæmilegt. Við komum úr ólíku umhverfi, þar sem við vorum alin upp á ólíkan hátt með alla okkar siði og lærdóm og því er eðlilegt að par lendi í árekstrum. Þessir árekstrar gætu samt líka verið vegna þess að parið er svo líkt hvort öðru, til dæmis verður árekstur hjá pari vegna þess að það vill bæði sjá um að innrétta heimilið.

Það er því hægt að líta svo á að ef par er líkt að mörgu leiti minnki það líkurnar á ágreiningi og hægt er að byggja langtímasamband sem er hamingjuríkt. Þannig er hægt að skapa samband þar sem par á fleiri ánægjulegar stundir  og deilir áhugamálum. Við þurfum því að velta fyrir okkur hvað er mikilvægast í sambandi. Ef þú hefur lengi verið einhleyp/ur en samt í leit að maka og það hefur ekki gengið, gæti verið að þú hafir verið að einblíni of mikið á efnislega þætti en ekki hvort þið eigið samleið?

Hefur þú einhvern tíman hugsað um eftirfarandi í tengslum við fyrri sambönd?

  • Hvernig gat ég verið svona blind/ur? Af hverju sá ég ekki hvernig hann/hún var í raun og veru?
  • Hann/hún virtist vera svo yndisleg/ur þegar við kynntumst? Ég skil ekki hvernig hann/hún gat breyst svona.
  • Ég var svo viss um að hann/hún væri öðruvísi en aðrir/aðrar sem ég hef verið með. Það tók mig næstum því tvö ár að komast að því að ég valdi sömu týpu aftur!

Margir virðast gera þau mistök að láta lostann ráða för í makaleit. Fólk virðist oft einblína of mikið á ákveðna týpu af manneskju sem það vill en ekki manneskju sem deilir sömu gildum og það.

Ef þú hefur átt í vandræðum með að finna maka prófaðu að skrifa niður á blað þá eiginleika sem þú heillast af. Hugsaðu aðeins um það sem var fjallað um hérna áðan, að það er mikilvægt að par sé líkt. Ef þú ert með lista bara með efnislegum þáttum, prófaðu þá að skrifa niður hvað væri mikilvægt til að þið verðið nánir vinir. Síðan getur þú prófað að nota þér það í leit þinni. Kannski á það eftir að koma þér á óvart og þú finnur langtímafélaga þinn.

Heimildir

Bell, B. (1993). Emotional loneliness and the perceived similarity of one’s ideas and interests. Journal of social behavior and personality, 8, 273 – 280.

Gonzaga, G. C., Campos, B. og Bradbury, T. (2007). Similarity, convergence, and relationship satisfaction in dating and married couples. Journal of personality and social psychology, 93, 34-48.

Karylowski, J. (1976). Self-esteem, similarity, liking and helping. Personality and social psychology bulletin, 2, 71 – 74.

Morry, M. M., Kito, M. og Ortiz, L. (2011). The attraction–similarity model and dating couples: Projection, perceived similarity, and psychological benefits. Personal relationships, 18, 125-143.

Murray, S. L., Holmes, J.G., Bellavia, G., Griffin, D. W. og Dolderman, D. (2002). Kindred spirits? The benefits of egocentrism in close relationships. Journal of personality and social psychology, 82, 563-581.

Murray, S. L., Holmes, J. G. og Griffin, D. W. (1996). The benefits of positive illusions: Idealization and the construction of satisfaction in close relationships. Journal of personality and social psychology, 70 ,79 – 98

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top