Meðferð

Þegar pör eða hjón velja sér meðferð er afar mikilvægt að ganga úr skugga um að sú meðferð sem meðferðaraðilinn notast við sé gagnreynd en það þýðir að búið sé að sýna fram á árangur hennar með rannsóknum. Þær Hrefna Hrund og Ólöf Edda notast báðar við aðferðir Dr. John Gottman. Hann hefur rannsakað sambönd í 40 ár. Hann hefur gert ítarlegar rannsóknir á yfir 3000 pörum og þær sýna að aðferðirnar sem hann notar aðstoðar pör að ná langtíma árangri. Samkvæmt Gottman þurfa pör að verða betri vinir, læra að eiga við ágreining og finna leiðir til þess að styðja drauma og vonir hvort annars til að eiga í heilbrigðu sambandi. Hrefna og Ólöf nota líkan Gottman sem hann kallar „hús í jafnvægi“ og fer í gegnum níu þætti með pörum til að skapa hamingjusamt samband.

Hús í jafnvægi

Hrefna Hrund og Ólöf Edda veita aðstoð við að skapa jákvæðni og nánd í sambandinu, kynnast hvort öðru betur, bæta samskipti, kenna leiðir til að takast á við ágreining og með því er verið að byggja upp traust.

Á sama hátt og það er mikilvægt að fólk velji sér meðferð sem er gagnreynd er mikilvægt að meta árangur á meðan á meðferð stendur. Fyrir alla skjólstæðinga okkar eru lagðir fyrir matslistar við upphaf, á meðan og í lok meðferðar. Þannig gefst bæði meðferðaraðilanum og skjólstæðingnum tækifæri til þess að fylgjast með árangri eða bregðast við og gera viðeigandi breytingar ef meðferðin er ekki að skila tilskyldum árangri.

Hvað hefur áhrif á árangur í meðferð?

Heimaverkefni eru mjög mikilvæg í meðferðinni. Niðurstöður rannsókna sýna að þeir sem vinna heimavinnuna sína ná betri árangri í meðferð en þeir sem gera það ekki. Mikilvægt er að hafa í huga að það eru engin rétt eða röng svör við heimavinnunni. Að leggja sig fram er það sem mestu máli skiptir og með því að spreyta sig á heimavinnunni gefst skjólstæðingum færi á að prófa sig áfram upp á eigin spýtur og fá uppbyggjandi leiðsögn frá meðferðaraðilanum. Gott er að hafa í huga að ekki er hægt að klúðra heimavinnunni, aðalatriðið er fá reynsluna og að takast á við verkefnið.

 Trúnaður

Hrefna Hrund og Ólöf Edda eru bundnar trúnaði gagnvart upplýsingum sem fram koma í viðtalstímum. Hins vegar verða þær að víkja frá þeirri reglu ef fram koma upplýsingar um að barn sé í hættu eða ef þær telja skjólstæðing vera í hættu sjálfs síns vegna eða er með áætlanir um að stofna öðrum í voða (samkvæmt ákvæðum í siðareglum sálfræðinga).

Scroll to Top