Áhrif skilnaðar

Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2009 enda um 36% hjónabanda með skilnaði á Íslandi. Það eru tvö orð sem segja má að lýsi skilnaði vel, áfall og sorg.

Oftast er talað um áfall sem viðbragð við hræðilegum atburði eins og til dæmis slysi, nauðgun eða náttúruhamförum. Áfall er því afleiðing óvenjumikillar streitu. Þó að skilnaður sé ekki fellibylur þá engu að síður getur hann verið mjög mikið áfall. Þegar við lendum í áfalli hugsum við oft „mun ég lifa þetta af?“. Mörgum líður eins og heimurinn hafi hrunið og það er erfitt að komast í gegnum vinnudaginn eða hafa orku til þess að sinna daglegu lífi. Oft er annar aðilinn í sambandinu búinn að taka ákvörðun um að enda sambandið án þess að hinn viti af því. Í sumum tilfellum hefur sá aðili fundið aðra manneskju og vill því ákaft enda sambandið til þess að hefja nýtt samband. Sá sem slítur sambandinu hefur oft verið búinn að hugsa um það í einhvern tíma og er búinn að sætta sig við sambandsslitin áður en hann ræðir það við maka sinn. Stundum tekur par sameiginlega ákvörðun um að þau henti ekki hvort öðru og ákveða að slíta sambandinu. Þetta er þó undantekning og oftast er það annar aðilinn í sambandinu sem vill enda sambandið og fer í gegnum þá angist hvernig hann geti slitið því. Þetta getur verið mikið áfall fyrir manneskjuna sem vildi ekki slíta sambandinu. Jafnvel grunaði hana ekki að hinn aðilinn væri að hugsa um skilnað og kom henni í opna skjöldu þegar hinn aðilinn sleit sambandinu.

Það er ástæða fyrir að við notum hugtakið ástarsorg þegar fólk lendir í áfallinu að slíta sambandi eða skilja. Sorg er skilgreind sem viðbrögð við missi og flestir upplifa sorg við að missa maka sinn, drauma og vonir. Það sem er öðruvísi við ástarsorg sem fylgir skilnaði en við fráfall maka eru viðbrögð almennings við sorginni. Fólk virðist oft hafa meiri skilning á að fólk syrgi látinn maka heldur en fyrrverandi maka sem er á lífi. Að upplifa ástarsorg er ofboðslega sársaukafullt en samt getum við ekki fundið neina áverka á líkama okkar.  Það var gerð mjög áhugaverð rannsókn árið 2011 um áhrif ástarsorgar. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að sama svæði í heilanum virkjast þegar fólk upplifir ástarsorg eða höfnun og þegar það brennir sig til dæmis á heitri hellu. Líkaminn gerir sem sagt ekki greinarmun á líkamlegum og andlegum sársauka.

Skilnaður leiðir til mikilla breytinga í lífi fólks. Það að sjá um öll verkefnin sem tengjast skilnaðinum getur leitt til kvíða, hræðslu og þunglyndis. Fólk upplifir missi. Að missa eignir, kennimark sem par og sem einstaklingur. Ef fólk á börn saman, missir það að vera ein heild, fjölskylda, og það hefur áhrif á allt daglegt líf. Lífstíll fólks breytist sem getur reynst erfitt. Fólk  þarf að endurskipuleggja allt lífið, búsetu, meta fjárhag, ef fólk á börn þá þarf að skoða hvernig foreldrahlutverkin eru, skipta eignum upp og þetta hefur áhrif á vinasambönd og tengdafjölskyldur.  Skilnaður er ein af mest streituvaldandi aðstæðum sem manneskja getur lent í. Þó að skilnaður virðist vera skynsamlegasta lausnin er hann nánast alltaf sársaukafullt ferli fyrir parið. Þar sem skilnaðarferlið er oftast streituvaldandi kemur það ekki á óvart að skilnaður veldur oft slæmri andlegri líðan. Streita er viðbragð líkamans við álagi. Streita getur birst á margan hátt svo sem erfiðleikar við að sofna eða vakna oft yfir nóttina, depurð, sektarkennd, kvíði, höfuðverkur, vöðvaspenna, pirringur, hræðsla, þreyta, grátur, fara í uppnám, draga sig í hlé frá öðrum og athöfnum. Þessi einkenni og tilfinningar eru eðlilegar við áfall og það er misjafnt hversu langan tíma það tekur fyrir fólk að vinna úr áfallinu. Parið sem er að skilja upplifir oft sársaukafullar og erfiðar tilfinningar á meðan það reynir að sinna daglegu lífi og hægt er að líkja þessu við rússíbanaferð. Einn daginn getur það upplifað mikla reiði en þann næsta finnst því það geta sigrað heiminn og komist í gegnum þessa þolraun. Það er eðlilegt að tilfinningar okkar sveiflist til og það sé dagamunur á okkur.

Núna getur verið að þú hugsir með þér „hvernig kemst ég í gegnum þessa sorg?“. Það er gott að hafa í huga að leyfa sér að syrgja. Reyndu að taka einn dag í einu og upplifa allar þessar tilfinningar sem fylgja sorginni. Leyfðu þér til dæmis að gráta. Fyrstu dagarnir eru oft erfiðastir og þá getur talist afrek að komast til dæmis fram úr rúminu. Mundu að hrósa þér fyrir afrekin, eins og að komast fram úr rúminu eða fara rétt út og anda að þér fersku lofti. Mikilvægt er að huga að grunnþörfunum, sofa, borða og fá einhverja hreyfingu. Leitaðu til vina eða fjölskyldu, það hjálpar oft að tala um sorgina við þá sem eru nánir manni.  Einnig er gott að gera það sem veitir manni ánægju, horfa til dæmis á gamanmynd, stunda áhugamál eða fara í göngutúr.

Heimildir

Amato, P.R. (2000). The consequences of divorce for adults and children. Journal of marriage and the family, 62, 1269-1287.

Chiriboga, D. A., Brierton, P., Krystal, S. og Pierce, R. (1982). Antecedents of symptom expression during marital separation. Journal of clinical psychology, 38, 732-741.

Chiriboga, D. A. og Krystal, S. (1985). An empirical taxonomy of symptom types among divorcing persons. Jouranl of clinical psychology, 41, 601-613.

Flaskerud, J. H. (2011). Heartbreak and physical pain linked in brain. Issues in mental health nursing, 32, 789-791.

Hackney, G. R. og Ribordy, D. (1980). An empirical investigation of emotional reactions to divorce. Journal of clinical psychology, 36, 105-110.

Snyder, D. K. og Halford, W. K. (2012). Evidence-based couple therapy, current status and future directions.  Journal of family therapy, 34, 229-249.

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top