Að sýna hvort öðru umhyggju

Það er hægt að sýna maka sínum umhyggju á ótal vegu. Að kaupa gjöf handa maka sínum er einn valkostur en að sýna umhyggju þarf ekki að kosta peninga. Sú umhyggja er límið sem heldur pari saman. Oft er talað um að par eigi að vera til staðar fyrir hvort annað þegar eitthvað bjátar á en það er ekki síður mikilvægt þegar vel gengur. Það að taka sigrum maka síns sem sínum eigin og gleðjast með maka sínum hefur mikil áhrif á hamingju í sambandi. Það eru þessir litlu hlutir sem skipta máli.

Hvernig er hægt að sýna umhyggju í daglegum samskiptum? Á hverjum degi langar maka okkar að fá viðbrögð við því sem hann segir eða biður um og vonar að hann fái athygli, faðmlag, koss, hlátur, væntumþykju eða viðurkenningu.Við biðjum auk þess um það sama frá maka okkar. Ef maki okkar hefur áhuga á fjallgöngu, ræðir það við þig og biður þig um að koma með sér er hann ekki bara að ræða um áhugamál sitt heldur óskar hann eftir athygli og áhuga þínum og jafnvel þinni þátttöku. Þó að þú hafir ekki mikinn áhuga á að tala um fjallgöngu og þess þá heldur að fara í eina slíka þá er mikilvægt að þú áttir þig á að þetta skiptir maka þinn máli og að þú sýnir áhuga af virðingu við hann. Það að skilja hvort annað, bera virðingu fyrir hvort öðru og áhugamálum hvort annars eykur líkur á traustara og heilbrigðara sambandi.

Ef þú hunsar ítrekað þarfir maka þíns grefur þú undan trausti ykkar á milli. Ástæðan fyrir því að þú bregst ekki við þörfum hans þarf ekki að vera illgirni heldur ef til vill og mun líklega hugsunaleysi.

Þessar tilraunir til að mynda tengsl við maka þinn hafa mikil áhrif á sambandið. Rannsóknir hafa sýnt að pör sem huga að og bregðast við þörfum maka síns eru líklegri til að haldast saman en pör sem gera það ekki. Í amstri daglegs lífs geta merki frá maka okkar um að hann þarfnist athygli auðveldlega farið framhjá okkur eða hreinlega gleymst. Umhyggja felst í því að vera meðvitaður um og bera virðingu fyrir maka okkar, skoða hvað er hægt að vera þakklátur fyrir í sambandinu og hvernig hægt er að sýna það. Ef við sofnum á verðinum föllum við oftar í þá gryfju að taka ekki tillit til þarfa makans, einblínum á og leitum eftir mistökum hans og gagnrýnum í takti við það.

Það er auðvelt að huga að þessu því við höfum val. Vertu meðvitaður um mikilvægi þess að sýna umhyggju í daglegum samskiptum. Ef þú ert að horfa á uppáhalds þáttinn þinn og maki þinn leitar til þín, veldu þá frekar að vera til staðar fyrir hann. Þú getur vonandi horft á þáttinn síðar.

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15.12.2014

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top