Framhjáhald

Berglind starði á tölvuskjáinn. Hún trúði ekki því sem hún sá á skjánum. Hún vissi ekki hversu lengi hún hafði setið hreyfingalaus og starað á tölvupóstinn „Ég hlakka svo til að hitta þig á sunnudaginn, búin að sakna þín svo mikið“. Einhver kona sem hét Arna sendi þennan póst til mannsins hennar. Berglindu fannst heimurinn hrynja.

Ef þú hefur lent í því að maki þinn haldi framhjá þér þá veistu örugglega hvernig Berglindu líður. Framhjáhald getur leitt til mikils sársauka og oft er erfitt að sinna daglegu lífi. Það er eins og geisladiskur snúist á ógnahraða í huganum með hugsunum eins og hvernig þetta hafi getað gerst og minningar um framhjáhaldið geta verið ágengar. Þegar framhjáhald er uppgötvað þá yfirleitt hrindir það af stað sterkum og sársaukafullum tilfinningum fyrir báða aðila eins og reiði, svik, skömm, depurð og samviskubit. Ekki eru til neinar áreiðanlegar tölur hérlendis um tíðni framhjáhalds en tíðni framhjáhalds í Bandaríkjunum er um 40% fyrir karlmenn og 20% fyrir konur.
Það eru alls konar atburðir sem valda áföllum, frá náttúruhamförum eða flugslysi að atburðum eins og framhjáhaldi. Hvað gerir atburð að áfalli? Það er neikvæður atburður sem skaða hugmyndir okkar eða viðhorf um heiminn og fólk. Það er þegar við upplifum sársauka og ótta. Áfall ógnar trú okkar á „réttlátan heim“ og ógnar sjálfsmynd okkar. Það eyðileggur líka traust og hefur áhrif á öryggistilfinningu okkar. Atburðurinn raskar öllu lífi okkar, hugsunum, tilfinningum og hegðun. Munurinn á náttúruhamförum og framhjáhaldi er að það fyrra er eitthvað sem er óhjákvæmilegt og er ekki af manna völdum. Framhjáhald er eitthvað sem var gert af ásettu ráði, manneskjan sem átti að elska þig, vernda þig fyrir heiminum og koma fram við þig af virðingu og hreinskilni brást þér.

Skilningur á afleiðingum framhjáhalds getur hjálpað þér að skilja betur hvaða tilfinningar og hugsanir þú er að upplifa. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að fólki hættir til að þróa með sér þunglyndi og kvíða eftir svik eins og framhjáhald alveg eins og hættan er á eftir missi af ýmsum toga. Við framhjáhald missir fólk öryggi, drauma um sambandið og traust. Tilfinningar þínar geta breyst á hverri mínútu eða þér getur jafnvel liðið eins og þú finnir ekki neitt og jafnvel haldið að það sé eitthvað að þér að líða þannig. Niðurstöður rannsókna sýna að oft koma viðbrögð við áfalli fram sem dofi. Það er misjafnt hvernig fólk bregst við áföllum.

Algeng viðbrögð við framhjáhaldi

Algengar hugsanir:

  • Ætli maki minn hafi áður haldið framhjá mér?
  • Ég hef ekkert vald í sambandinu, ég get ekkert gert til að hafa áhrif á hvað gerist á milli okkar.
  • Hvað verður um okkur, mun ég enda ein/n?
  • Ætli allir aðrir hafi vitað þetta?

Algengar tilfinningar:

  • Reiði, depurð, kvíði
  • Niðurlæging og skömm
  • Þér líður eins og tilfinningar þínar heltaki þig og þú hafir enga stjórn á þér.

Algeng hegðun:

  • Þú ert ráðvilltur, til dæmis starir á vegginn tímunum saman og finnst þú ekki hafa neinn tilgang.
  • Þú leitar stöðugt að ástæðu fyrir gjörðum maka þíns, spyrð endurtekið „hvernig gastu gert þetta?“.
  • Þú dregur þig í hlé tilfinningalega og líkamlega, einangrar þig.

Það er ekki skrítið að upplifa til dæmis reiði eftir uppgötvun framhjáhalds. Maki þinn tók þá ákvörðun að halda framhjá, ljúga og jafnvel hætta á að þú fáir kynsjúkdóm. Oft upplifir fólk líka skömm, því finnst það sjálft hafa gert eitthvað rangt og þetta sé þeim að kenna að maki þeirra hélt framhjá. Það er ekki þér að kenna að maki þinn hafi haldið framhjá. Það getur vel verið að það sé vandamál í sambandinu ykkar en maki þinn tók ákvörðun um að halda framhjá og fólk verður að taka ábyrgð á sinni hegðun. Það á því líka við um maka þinn sem þarf að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Sá sem að hélt framhjá maka sínum á líklega líka erfitt með tilfinningar, er ráðvilltur og óviss um framtíðina, kvíðinn um sambandið, finnur fyrir einmanaleika, reiði, skömm, sektarkennd og sársauka.

Eftir vitneskju um framhjáhald getur það valdið ýmsum flækjum, eigum við að vera saman eða hætta saman? Ef við viljum vera saman á ég þá að kyssa maka minn eftir það sem hann gerði mér? Ættir þú að fara út að borða með vinum og láta eins og þið séuð hamingjusamt par? Hlutir sem þú tókst áður sem gefnu eru núna kannski orðnir óþægilegir eða ógeðslegir.

Hvað sem öllu öðru líður er framhjáhald stórmál. Það veldur áfalli. Þú átt kannski eftir að segja og gera hluti sem eru ekki líkir þér en það eru líka eðlileg viðbrögð við því sem gerðist.

Að jafna sig eftir framhjáhald er erfitt og langt ferli. Spurningin sem brennur ef til vill á þér núna er „Eigum við framtíð saman?“. Svarið við þessari spurningu er „kannski“. Um 60 til 75% para halda áfram að vera gift eftir að annar makinn kemst að framhjáhaldi hins, aðeins minnihluti skilur. Sum pör halda áfram að basla við að ná sér eftir framhjáhald og finna fyrir sársauka, engu trausti og eru óhamingjusöm. Hins vegar eru mörg pör sem taka ákvörðun um að vera áfram saman og ná að skapa ástríkt og öruggt samband. Það getur kostað vinnu að byggja sambandið upp á ný.

Heimildir:

Cano, A. og Leary, K. D. (2000). Infidelity and separations precipitate major depressive episodes and symptoms of nonspecific depression and anxiety. Journal of consulting and clinical psychology, 68, 774-781.

Gordon, K. C., Baucom, D. H. og Snyder, D. K. (2004). An integrative intervention for promoting recovery from extramarital affairs. Journal of marital and family therapy, 2, 213-231.

Snyder, D. K., Baucom, D. H. og Gordon, K. C. (2007). Getting past the affair. New York: The guilford press.

Snyder, D. K., Gordon, K, C. og Baucom, D. H. (2004). Treating affair couples: extending the written disclosure paradigm to relationship trauma. Clinical psychology: Science and practice, 2, 155-159.

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top