Góð ráð til að hafa í huga í sínu sambandi

Eyða tíma saman

Þú átt líklega minningu um frábæran tíma í byrjun sambandsins þar sem allt var nýtt og spennandi. Síðan þegar líður á sambandið fer daglegt amstur að hafa áhrif, börn, störf, áhugamál og aðrar skuldbindingar. Sambandið gleymist því oft. Það er hins vegar mjög mikilvægt að búa til tíma fyrir sambandið. Það getur því verið gott að skipuleggja eitt kvöld í viku sem er ykkar kvöld. Það þarf ekki endilega að gerast utan veggja heimilisins. Gott er að skipta ábyrgð um hver skipuleggur kvöldið. Einnig er sniðugt að finna áhugamál sem ykkur finnst báðum gaman af.

Góð samskipti

Góð samskipti er lykillinn að heilbrigðu sambandi. Gott er að minna sjálfan sig á að hlusta og veita því sem maki manns er að segja athygli. Einnig er sniðugt að spyrja maka í lok vinnudags hvernig dagurinn var og spjalla saman. Mikilvægt er að muna að maki manns les ekki hugsanir þó svo að þið séuð búin að vera saman í mörg ár. Því þarf að segja maka sínum frá líðan sinni og hugsunum. Þannig er hægt að koma í veg fyrir misskilning.

Hrósa

Ekki gleyma að hrósa maka þínum fyrir það sem hann gerir vel. Þá ertu að auka líkur á að hann gerir þetta aftur ásamt því að láta maka þínum líða vel með það sem hann gerði. Þú ert með þessu að auka jákvæðni í sambandinu.

Búast við að sambandið fari í gegnum góða og slæma tíma

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að í sambandi koma tímar sem eru slæmir og góðir. Það geta komið tímar þar sem maki þinn gengur í gegnum erfiðleika (atvinnumissir, heilsufarsleg vandamál, missir) og þú átt erfitt með að skilja hann. Það er mjög mismunandi hvernig fólk tekst á við stressandi aðstæður og því getur misskilningur fljótt breyst í pirring eða reiði. Því er mikilvægt að láta reiði ekki bitna á maka sínum og muna að þið eruð saman í liði. Vera hreinskilin og muna að þetta er ástand sem mun líða hjá.

Viðhalda innileika

Öll þurfum við snertingu. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að snerting eykur hormónið oxytocin sem hefur áhrif á það hvernig við myndum tengsl. Kynlíf er mikilvægt í samböndum en önnur snerting eins og að haldast í hendur, faðmast og kyssast er ekki síður mikilvæg.

Heimildir

Gottman, J. (2007). Why marriages succeed or fail and how to make yours last. London: Bloomsbury publishing plc.

Holt-Lunstad, J., Birmingham, W.A. og Light, K. C. (2008). Influence of a „warm touch“ support enhancement intervention among married couples on ambulatory blood pressure, oxytocin, alpha amylase, and cortisol. Psychomatic medicine, 70, 976-985.

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top