Rifrildi, hvað er til ráða?

Oft telur fólk að það sé merki um heilbrigt samband ef að par rífst aldrei. Öll pör rífast af og til og í heilbrigðum samböndum verða pör stundum reið við hvort annað. Það getur verið gott og þroskandi fyrir sambandið að takast á við ágreining. Ef að manneskja ræðir ekki við maka sinn þegar hún er ósátt þá getur það haft mun neikvæðari áhrif á sambandið heldur en tímabundna vanlíðanin sem kemur í kjölfar rifrildis. Það ber því að varast að láta pirring byggjast upp. Sem sagt þá getur samskiptaleysi haft verri afleiðingar en að ræða ágreining. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna um muninn á því hvernig hamingjusöm og óhamingjusöm pör rífast þá er tvennt sem stendur upp úr. Hamingjusöm pör nota annars vegar ákveðið samskiptamál og hins vegar ákveðnar aðferðir, til þess að koma í veg fyrir neikvæðan spíral.

Hér eru þrjú atriði sem er gott að hafa í huga við rifrildi:

Ræða málin rólega: Fyrsta skrefið er að ræða hvað gerðist til þess að skilja hvað fór úrskeiðis og hvernig ykkur báðum líður. Alveg sama hversu mikið þér finnst eitthvað vera maka þínum að kenna þá mun það ekki skila þér neinu að koma með ásakanir og gagnrýni. Byrjaðu frekar að ræða kvörtun með því að nota „ÉG“ í staðinn fyrir „ÞÚ“, til dæmis „mér finnst þú vera ósanngjarn“ frekar en að segja „þú ert ósanngjarn“. Þá eru minni líkur á að maki fari í vörn og taki kvörtuninni sem gagnrýni eða árás. Það er líklegra að hann hlusti á þig og geti sett sig í þín spor.

Tilraunir til sáttar: Við tökum oft ekki eftir þegar maki er að reyna að gera tilraunir til að laga vandamálið þar sem við erum föst í neikvæðni. Það er því mikilvægt að vera vakandi fyrir þessu og taka eftir þegar maki er að reyna að bæta ástandið. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að rifrildið fari úr böndunum. Tilraunir til sáttar er til dæmis að segja:

„Mér finnst eins og þú skiljir mig ekki núna..“

„Ég skil hvað þú meinar“

„Ég veit að þetta er ekki þér að kenna“

„Fyrirgefðu“

„Hvernig get ég lagað þetta?“

„Gerðu það, ekki lesa svona yfir mér. Geturðu sagt þetta við mig á annan hátt?“

„Ég sé að þetta var ekki rétt af mér“

Með því að bæta ykkur á þessu sviði og læra að taka við tilraunum til sáttar frá hvort öðru getið þið aukið hæfni ykkar til að leysa vandamál og aukið jákvætt viðhorf um hvort annað og sambandið.

Málamiðlun: Að finna málamiðlun er grundvallaratriði til þess að leysa ágreining. Ef við hugsum bara um að okkar lausn sé sú besta og sú eina þá erum við ekki að sýna maka virðingu og ást. Ef að maki er ekki sammála þér um bestu lausnina, þá getur verið betra að sætta sig við að einhverjum þörfum verði mætt frekar en engum. Hugsið um hvað þið viljið fá útúr ágreiningnum. Eftir að hafa rætt það þarf að skoða hvaða útkomu þið eruð tilbúin til að sætta ykkur við þannig að báðir aðilar fái einhverjar þarfir uppfylltar.

Það sem ber sérstaklega að varast í rifrildi er að móðga hvort annað, kalla hvort annað illum nöfnum og vera kaldhæðin/n.Í rifrildi þá viljum við að maki okkar hlusti á okkur og skilji afþví að við erum ósátt með eitthvað. Þegar maki þinn kvartar við þig skaltu líta á það sem tækifæri til þess að læra meira um maka þinn. Reynið að skilja sjónarhorn hvort annars þannig að þið getið bæði verið sátt.

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15.09.2014

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top