Ertu til staðar fyrir mig?

Hverjum hlýnar ekki um hjartarætur þegar hann heyrir eldra par tala fallega um sambandið sitt eða sér eldra par leiðast úti? Fólk almennt hefur mikinn áhuga á samböndum. Oft kemur umræða hjá vinkonum eða vinum um sambandserfiðleika og það sem iðulega er þemað í þeim umræðum er að viðkomandi finnst makinn ekki vera til staðar fyrir sig. Mig vantar eitthvað frá maka mínum og mér finnst hann loka á mig. Við vitum að þegar við erum hamingjusöm í sambandinu okkar, finnst maki okkar skilja okkur og sýna okkur stuðning, þá finnum við fyrir öryggi. Það að geta treyst á maka gerir okkur sterkari. Niðurstöðum rannsókna um ástina ber saman um að ef fólk er í stöðugu og ástríku sambandi þá er það kjarni hamingju og heilbrigði. Það skiptir miklu máli fyrir heilsu einstaklinga að vera í hamingjusömu sambandi. Þetta er það sem flestir þrá, að tengjast einhverjum, finna að maki sé til staðar og finna fyrir stuðningi.

Hvernig getum við verið meira til staðar fyrir maka okkar? Svarið er að hlusta á hann og sýna áhuga. Þetta hljómar einfalt en getur oft á tíðum verið okkur erfitt. Ef þú hugsar út í það, þegar eitthvað bjátar á, eða þú ert ósáttur við eitthvað, hvað er það sem þú vilt í samræðum við  maka þinn? Að hann hlusti á þig og meðtaki það sem þú ert að segja, ekki satt? Þegar við finnum fyrir því að það sé hlustað á okkur og okkur sýndur skilningur þá verða öll vandamál einhvern veginn miklu auðveldari. Þegar maki kemur með vandamál sem hann vill ræða þá er oft munur á hvernig konur og karlar tækla það. Konum hættir til að taka vandamáli maka síns sem sínu eigin og gagnrýna maka sinn. Karlmenn fara beint í að leita lausna á vandanum. Hvorugt er hjálplegt og lætur makanum líða eins og það hafi hvorki verið hlustað á hann né að honum hafi verið sýndur skilningur. Mikilvægast er að skilningur komi á undan ráði. Við erum nefnilega almennt séð mjög góð í að búa til lausn á eigin vanda. Að hlusta og sýna skilning gerir töfra í sambandi.

Til þess að auka líkur á að þú getir verið til staðar fyrir maka þinn og hlustað á hann þá er góð venja að vita alltaf eitthvað um hvað er að gerast í lífi maka þíns þann daginn. Þegar þið hittist í dagslok er gott að ræða hvernig dagurinn var hjá ykkur og spyrja hvort annað.  Huggið hvort annað ef eitthvað bjátar á og hjálpið hvort öðru með erfiðar tilfinningar með því að ræða þær og sýna skilning. Allar tilfinningar eiga rétt á sér. Það mikilvægasta sem þú gerir fyrir sambandið þitt er að vera til staðar fyrir maka þinn.

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top