Gott samband

Við erum oft spurðar að því hvað er gott samband. Sambönd eru eins ólík og þau eru mörg og það eru margir þættir sem gera samband gott. Hinsvegar skiptir samvinna gríðarlega miklu máli.

Það er hægt að segja að gott samband samanstandi af ást, trausti, skuldbindingu, sjálfsvirðingu og virðingu fyrir maka þínum. Í góðu sambandi fær maður einnig tækifæri til að vaxa sem einstaklingur og á sama tíma vaxa með maka sínum þannig að sambandið verður sterkara. Gott samband felur í sér meira en að vera ástfangin hvort öðru og eiga góðar stundir saman. Það felur einnig í sér hæfnina til að takast á við slæma tíma.

Anna og Davíð eiga tvö ung börn. Líf þeirra einkennist af öllu stressinu sem fylgir daglegu amstri og fjölskyldulífi. Þau gengu í gegnum mjög erfiðan tíma í 18 mánuði þegar Davíð missti vinnuna. Þetta hafði mikil áhrif á fjárhag fjölskyldunnar og líka sjálfsmat Davíðs. Anna þurfti að taka mikið af auka vöktum til þess að reyna að bæta fjárhaginn. Þrátt fyrir allt þetta erfiði náðu Anna og Davíð að komast í gegnum þessa erfiðleika án þess að það hefði veruleg áhrif á sambandið.

Þegar Anna og Davíð voru spurð hvernig þau gátu komist í gegnum þennan tíma og verið hamingjusöm í sambandinu sögðu þau að góð samskipti var það sem skipti mestu máli. Þau  töluðu um allt, aðstæðurnar, hvernig þeim leið og hvað þau voru að hugsa. Þó svo að þau hefðu stundum verið leið þá reyndu þau að hvetja hvort annað á uppbyggilegan hátt. Þegar það var mikil streita og þau voru pirruð létu þau hvort annað vita. Þegar þau fóru að rífast þá létu þau hvort annað vita að þau þyrftu smá pásu frá hvort öðru svo að rifrildið yrði ekki verra. Þau gerðu áætlun saman um hvernig þau gætu lifað fjárhagslega á meðan Davíð væri að leita að vinnu. Davíð setti sér markmið um atvinnuleit og í hverri viku ræddu Anna og Davíð um hvernig markmiðin gengu.

Við þekkjum örugglega öll einhvern sem virðist komast á stórkostlegan hátt í gegnum alls kyns neikvæðar aðstæður. Þó að það virðist sem það sé náttúrulegur hæfileiki fyrir marga þá hins vegar þurfa flestir að læra ákveðnar leiðir til að hjálpa sér að komast í gegnum þolraunir. Anna og Davíð áttuðu sig ekki einungis á því að þau þurftu að hugsa á jákvæðan hátt heldur einnig að þau þurftu að hegða sér á jákvæðan hátt. Þau skildu líka hvernig á að eiga í góðum samskiptum og setja sér skammtíma og langtíma markmið. Í gegnum alla erfiðleikana tóku þau lítil skref í áttina að stóra markmiðinu.

Samband krefst skuldbingar frá báðum aðilum til að læra um hvort annað og þroskast saman. Gott samband felur í sér að byggja jákvætt samstarf. Eina leiðin til þess er að eiga í góðum samskiptum. Margir halda að merki um gott og heilbrigt samband sé að rífast aldrei. Það er mjög eðlilegt að par rífist og sé ekki alltaf sammála. Það sem skiptir máli er hvernig við glímum við ósættin. Það er til dæmis góð leið að hlusta á maka þinn um ágreininginn, skiptast á að tala, tala um eitt vandamál í einu og ekki blanda einhverju gömlu inn í. Talaðu um vandamálið út frá sjálfri/um þér og um hvernig þér líður. Ef þú finnur fyrir mikilli reiði og telur að þú gætir sagt eitthvað særandi takið þá smá hlé frá hvort öðru, hittist svo þegar þið hafið jafnað ykkur og haldið þá áfram að ræða saman. Oft þarf maður að gera málamiðlun.

Gott samband er ekki eitthvað sem verður til á einni nóttu. Það krefst vinnu og oft hrasar maður á leiðinni. Það hins vegar gefur manni tækifæri til að læra.

Heimildir

Grein þýdd úr bókinni: Damani, S. og Clay, L. (2008). Resolving relationship difficulties with CBT. Oxfordshire: Blue stallion publication.

Gottman, J. M. og Notarius, C, I. (2000). Decade Review: Observing Marital Interaction. Journal of marriage and the family, 62, 927-947.

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top