Traust í samböndum

Flestir telja traust vera mjög mikilvægan þátt í sambandi.

Endurtekinn óheiðarleiki eins og lygar, framhjáhald og feluleikur veikir traust. Traust hefur svo bein áhrif á það hvort fólk greinir frá ánægju í samböndum. Sambandsánægja er hugtak sem mikið er rætt um í meðferðarvinnu með pör. Þeir sem telja sig geta treyst sínum maka mælast yfirleitt með hærri sambandsánægju. Þeir sem greina frá ánægju í sambandi sýna betri andlega og líkamlega líðan. Þeir eru einnig betur í stakk búnir til þess að takast á við krefjandi atburði sem koma upp í lífi þeirra eins og fjárhagserfiðleikar, atvinnumissir, flutningar eða barneignir.

Í samböndum er mikilvægt að deila veikleikum sínum og að geta sýnt samúð. Það veitir öðrum öryggi og sýnir að okkur er annt um aðra. Samkvæmt John Bowlby þá er það meðfætt hjá fólki að vilja hugsa um aðra og að vita til þess að aðrir hugsi um þeirra þarfir líka. Með tímanum myndast traust í sambandi þegar við tökum sigrum maka okkar sem okkar eigin og þegar þeirra óhamingja verður okkar. Það tekur tíma að mynda innileg tengsl við aðra.

Sjálfstraust hefur áhrif á traust milli aðila. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að sjálfstraust spili stórt hlutverk í ástarsamböndum. Að hve miklu leyti við getum haft áhrif á aðstæður í okkar lífi ræðst af sjálfstrausti okkar. Einstaklingar sem mælast með gott sjálfstraust gengur almennt betur í erfiðum aðstæðum. Hins vegar þeir sem mælast með lágt sjálfstraust eru líklegri til þess að vera óöryggir og gefast upp í krefjandi aðstæðum. Sjálfstraust getur haft áhrif á það hvort gott traust sé til staðar í sambandi. Ef einstaklingur er mjög óöruggur þá hefur það áhrif á samskipti. Bæði hvernig hann hagar sér og hvað hann segir. Samskiptavandi hjá pari er mjög algengt vandamál.

Að segja eitt en meina annað veikir traust. Það þarf ekki aðeins að vera óheiðarleiki heldur einnig eiga erfitt að koma orðum að einhverju og finnast því betra að sleppa því að segja eitthvað.
Ef svo maki fréttir af því á annan hátt hefur það áhrif á traust. Þetta getur verið eitthvað smáatriði fyrir einn en mikið mál fyrir annan. Þess vegna er mikilvægt að deila áhyggjum sínum og óöryggi með þeim sem okkur þykir vænt um.

Hvernig er þá best að mynda traust í sambandi? Meina það sem þú segir og segja það sem þú meinar. Það er alltaf hægt að vinna að breytingum í sambandi og með því bæta traust sem hefur verið brotið.

Hrefna Hrund Pétursdóttir og Ólöf Edda Guðjónsdóttir, sálfræðingar

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 12.05.2014

Deila þessu...
Share on Facebook
Facebook
0Tweet about this on Twitter
Twitter
Email this to someone
email
Scroll to Top