Siðareglur sálfræðinga

Þær siðareglur sem hér eru gefnar út eru samnorrænar og gilda fyrir félaga í Sálfræðingafélagi Íslands. Þær voru endurskoðaðar í samvinnu við sálfræðingafélög hinna Norðurlandanna og samþykktar á framhaldsaðalfundi Sálfræðingafélags Íslands 1998.

Formáli

Við vinnu sína geta sálfræðingar staðið frammi fyrir sérstökum aðstæðum sem krefjast erfiðrar siðferðilegrar yfirvegunar þar sem almennar siðareglur nægja ekki til þess að ákvarða rétta siðferðilega breytni á faglegum grundvelli. Faglegar siðareglur eru ítarlegur viðauki við almenn siðferðileg viðmið sem gilda fyrir sálfræðinga og aðra.

Sálfræðingur í starfi sínu er í nánum samskiptum við einstaklinga og er oft á mörkum eða fyrir innan þau persónulegu mörk sem einstaklingurinn hefur sett sér. Á sama hátt er einstaklingurinn sífellt á varðbergi í þessum samskiptum vegna heiðurs og virðingar sinnar. Þessar aðstæður valda oft spennu hjá einstaklingnum milli þess að vera háður og sjálfstæður í ákvörðunum og gerðum sínum. Sálfræðingurinn verður ætíð að gera sér grein fyrir þessari spennu og standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Vegna þessara starfsaðstæðna hafa sálfræðingar í samvinnu samið faglegar siðareglur með það að markmiði að þær séu leiðbeinandi og veiti stuðning við siðferðilega ákvörðunartöku.

Evrópusamtök sálfræðinga EFPPA (The European Federation of Professional Psychologist Association) samþykktu 1995 ?Meta Code of Ethics“. Siðareglur þeirra eiga að nýtast sálfræðingum við allar þær aðstæður sem þeir mæta í starfi sínu.

Frá miðjum níunda áratugnum hafa sömu siðareglur sálfræðinga verið í gildi á Norðurlöndunum. Síðan 1996-97 hefur verið unnið að því samræma þær siðareglum EFPPA vegna vaxandi þarfar fyrir að semja siðareglurnar þannig að þær séu hjálpartæki við siðferðilega hugsun og ákvörðunartöku frekar en að þær séu hegðunarreglur um hvað skuli gera við margbreytilegar aðstæður.

Siðareglunum er skipað í fjórar grundvallarreglur með nákvæmari athugsemdum við hverja grundvallarreglu. Grundvallarreglurnar eru:

– Virðing fyrir réttindum einstaklingsins og reisn

– Hæfni

– Ábyrgð

– Heiðarleiki

Grundvallarreglurnar eru gerðar til þess að:

  • styðja norræna sálfræðinga er þeir standa frammi fyrir siðferðilegum álitamálum,
  • vernda skjólstæðinga gegn tilgangslausri og/eða skaðlegri meðferð,
  • vera staðall fyrir hvað sé siðferðilega og faglega forsvaranlegt í samskiptum sálfræðinga við aðra einstaklinga,
  • stuðla að því að viðhalda trausti á sálfræðinni sem starfs- og fræðigrein,
  • vera sá grunnur sem hægt er að byggja á við samningu siðareglna sem eiga að gilda við sérstakar aðstæður/starfssvið.

Siðareglurnar eru fyrst og fremst skrifaðar fyrir sálfræðinga. Þær eru skrifaðar með hugtökum sálfræðinnar svo þær séu sálfræðingum sem aðgengilegastar og veiti sem bestar upplýsingar um málefnið. Siðareglurnar verða ekki svo auðveldlega túlkaðar yfir á fagmál annarra fræða t.d. sem lögfræðilegur texti eða lög.

Siðareglurnar setja sálfræðilegri starfsemi ákveðin mörk. Með sálfræðilegri starfsemi er átt við hverjar þær aðstæður þar sem sálfræðingar starfa eða stunda rannsóknir í tengslum við einstaklinga, hópa eða stofnanir, í nafni fagmennsku sinnar.

Fara skal eftir siðareglunum við hvers konar starfsemi, ef hún er framkvæmd af sálfræðingum og byggir á færni, sem viðkomandi hefur öðlast í sálfræðinámi sínu, þótt ekki sé skilyrðislaust hægt að halda því fram að um sálfræðilega starfsemi sé að ræða.

Sálfræðingafélög Norðurlandanna bera ábyrgð á að hvetja meðlimi sína til þess að hugsa og ræða um siðferðileg málefni, meðal annars með því að fræða um siðfræði, með ráðgjöf um siðfræðileg málefni og þau vænta þess að félagsmenn efli siðferðisvitund sína í hvívetna. Siðareglurnar gilda fyrir alla félagsmenn í hinum norrænu sálfræðingafélögum og eiga við hverskonar sálfræðilega starfsemi. Norrænu sálfræðingafélögin ráða yfir leiðbeinandi og agandi aðferðum með það að markmiði að fjalla um og taka afstöðu til kvartana vegna félagsmanna.

1. Inngangur

Sálfræðingar búa yfir mikilvægri þekkingu byggðri á rannsóknum og starfsreynslu sem þeir nýta í sálfræðilegri starfsemi sinni. Sálfræðingurinn og sálfræðin eru í stöðugri þróun nýrrar þekkingar og aðferða. Þróunin á sér stað í samfélagi sem tekur sífelldum breytingum og stöðugt skapast nýjar aðstæður og verksvið fyrir sálfræðinga. Mikilvægt er því að sálfræðingar geri sér vel grein fyrir eigin takmörkunum og virði þekkingu og hæfni starfsfélaga og annarra starfsstétta.

Sálfræðingar nýta þekkingu sína og fjölbreyttar starfsaðferðir á margskonar starfsvettvangi, í mismunandi hlutverkum við breytilegar aðstæður og í samstarfi við margar starfsstéttir. Sálfræðingar geta lagt sitt af mörkum til þess að breyta aðstæðum einstaklings, hópa og stofnana á markvissan hátt. Starfsaðferðir sálfræðinga geta haft mikilvæg áhrif á einstaklinga. Starfsvettvangur sálfræðinga krefst því sterkrar siferðisvitundar og er það ástæðan fyrir því að sálfræðingar hafa valið að setja sér faglegar siðareglur.

Starfsvettvangur sálfræðinga er það margbreytilegur að ekki er hægt að setja skýrar formlegar reglur um allar aðstæður. Því er siðferðisvitund, ábyrgðartilfinning og færni hvers sálfræðings það sem mestu skiptir. Umræður um og stöðug þróun faglegra siðareglna er afar mikilvæg. Þær gilda um einstaklinginn í mannlegum samskiptum og hafa því verulegan stöðugleika og verður ekki breytt svo auðveldlega.

2. Grundvallarreglur

Hugtakið ?skjólstæðingur? vísar til sérhvers einstaklings, hóps eða stofnunar þar sem sálfræðingurinn sinnir sálfræðilegri starfsemi. Við vissar aðstæður verður einnig að nota hugtakið skjólstæðingur í víðari merkingu og þá um einstaklinga sem eru óbeinir neytendur t.d. fjölskylda skjólstæðings, fyrirtæki eða stofnun sem hann vinnur fyrir, þjónustuþegar, sjúklingar stofnunar og aðrir sem málið snertir.

2.1 Virðing fyrir réttindum einstaklingsins og reisn

Sálfræðingurinn virðir og vinnur að því að þróa réttindi einstaklingsins, reisn og heiður. Hann virðir rétt einstaklingsins til einkalífs, sjálfsákvörðunar og sjálfsstjórnar, í samræmi við faglegar skyldur sálfræðinga og eins og lög kveða á um.

Virðing

Sálfræðingurinn virðir grundvallarréttindi einstaklingsins, heiður og sjálfsákvörðunarrétt og gætir þess að kunnátta hans sé ekki notuð til þess að misbjóða, misnota eða kúga einstaklinga.

Sálfræðingurinn er vakandi fyrir þekkingu, innsæi, færni og reynslu skjólstæðinga og annarra starfsstétta og virðir hæfni, skyldur og ábyrgð þeirra.

Sálfræðingurinn gerir sér vel grein fyrir einstaklingsmismun, menningarmismun og mismunandi hlutverkum. Einnig mismun sem kemur fram vegna andlegrar og líkamlegrar getu, kynferðis, kynhneigðar, kynþáttar, þjóðernis og félagslegrar stöðu eins og aldurs, trúhneigðar og tungumáls. Hann gerir sér grein fyrir eigin takmörkunum vegna menningaruppruna, félagslegrar stöðu og kynferðis.

Trúnaður og þagnarskylda

Sálfræðingurinn virðir rétt einstaklingsins til trúnaðar með því að segja ekki frá því sem honum er trúað fyrir af skjólstæðingi og því sem hann fær vitneskju um við sálfræðilega starfsemi sína. Undantekningu skal gera frá þagnarskyldunni, ef augljós hætta bíður skjólstæðings eða annarra. Sálfræðingurinn getur þó í samræmi við lög verið skyldaður til að veita upplýsingar og gerir því skjólstæðingi sínum grein fyrir þeim takmörkunum á þagnarskyldu sem gilda skv. lögum.

Samþykki byggt á upplýsingum og valfrelsi

Sálfræðingurinn gerir grein fyrir ákvörðunum sínum varðandi aðgerðir og ræðir um aðferðir á meðan meðferð fer fram og líklegar afleiðingar þannig að skjólstæðingurinn hafi möguleika á að velja hvort hann vilji taka þátt í sálfræðilegri aðgerð/meðferð. (Upplýst samþykki). Sé skjólstæðingur undir lögaldri eða hafi forráðamann/lögráðamann, skal leita upplýsts samþykkis og taka tillit til sjálfsákvörðunarréttar skjólstæðingsins, eins og hægt er.

Sjálfsákvörðun

Sálfræðingurinn sér til þess að skjólstæðingurinn njóti sjálfsstjórnar og taki eigin ákvarðanir þar með talið að ákveða hvort hann velji samstarf við sálfræðinginn eða ákveði að hætta samstarfi. Sé skjólstæðingurinn barn eða einstaklingur sem lög um þvingun varða eða er í mjög erfiðum aðstæðum er leyfilegt, með hliðsjón af gildandi lögum, að víkja frá siðareglunni um þátttökufrelsi, en sálfræðingurinn leggur sig fram um að ná samstarfi við skjólstæðinginn.

2.2 Hæfni

Sálfræðingurinn leggur sig fram um að viðhalda ríkri faglegri hæfni í starfi sínu og bæta hana af fremsta megni. Hann leggur sig fram um að þekkja faglegar og persónulegar sterkar og veikar hliðar sínar, þannig að hann geti á raunhæfan hátt metið hvaða verkefni hann getur tekið að sér. Sálfræðingurinn tekur einungis að sér verkefni, býður þjónustu sína, og nýtir aðeins þá tækni sem hann ræður vel við m.t.t. menntunar sinnar, þjálfunar og reynslu.

Siðferðisvitund

Forsenda ríkrar faglegrar hæfni er að sálfræðingurinn þekki vel siðareglur sálfræðinga, og að siðferðileg umhugsun og ákvarðanir um siðferðileg álitamál séu mikilvægur hluti af starfi hans.

Hæfni og hæfnisþróun

Sálfræðingurinn starfar í samræmi við vísindalegar aðferðir og margprófaða reynslu og viðheldur stöðugt faglegri hæfni sinni. Sálfræðingurinn fylgist með vísindalegri og faglegri þróun á starfssviði sínu.

Takmarkanir á hæfni

Sálfræðingurinn starfar í samræmi við og innan þeirra takmarka sem hæfni setur honum sem byggir á menntun, þjálfun og reynslu hans. Hann gerir sér grein fyrir styrkleika og takmörkunum sínum og leitar faglegrar aðstoðar og stuðnings við erfiðar aðstæður.

Aðferðafræðilegar takmarkanir

Sálfræðingurinn gerir sér grein fyrir þeim aðferðafræðilegu og tæknilegu takmörkunum sem geta verið til staðar vegna ákveðins verkefnis og hvaða áhrif takmarkanirnar hafa á túlkun niðurstaðna. Sálfræðingurinn sýnir sérstaka varkárni er hann notar aðferðir, hjálpargögn og tækni, sem enn eru á tilraunastigi og fullnægja ekki hefðbundnum kröfum um aðferðarfræði eða hann hefur ekki sjálfur fullkomið vald á.

Ytri takmarkanir-starfsaðstæður

Sálfræðingurinn gerir sér grein fyrir þeim takmörkunum sem ytri skilyrði og aðstæður setja starfsaðferðum og hæfni hans.

2.3 Ábyrgð

Sálfræðingurinn er vakandi fyrir þeirri faglegu og vísindalegu ábyrgð sem hann hefur gagnvart skjólstæðingum sínum og þeirri stofnun og samfélaginu sem hann býr og starfar í. Sálfræðingurinn forðast að valda skaða og ber ábyrgð á gjörðum sínum. Hann tryggir að svo miklu leyti sem hægt er að þjónusta hans sé ekki misnotuð.

Ábyrgð

Sálfræðingurinn tekur sjálfstæða ábyrgð á gæðum og afleiðingum af starfi sínu og gerir sér grein fyrir að hann er talinn fulltrúi starfsstéttar sinnar af almenningi.

Forðast misnotkun /skaða

Sálfræðingurinn reynir að koma í veg fyrir að sálfræðileg þekking eða aðferðir séu misnotaðar og ber ábyrgð á að sá skaði sem af hlýst, sem hægt er að sjá fyrir en ekki hægt að koma í veg fyrir, verði sem minnstur. Sálfræðingurinn tekur ekki þátt í aðgerðum (?innrætingu?, ?heilaþvotti?, pyndingum), t.d. líkamlegum eða andlegum þvingunum – eða með hótunum um slíkt, sem hafa þann tilgang:

· að knýja fram upplýsingar eða játningar,

· að reyna að fá einhvern til að ljóstra upp, afneita eða breyta lífsviðhorfum sínum eða annarra, pólitískri, trúarlegri eða siðferðilegri sannfæringu.

Sálfræðingurinn reynir af fremsta megni að koma í veg fyrir að sálfræðileg þekking sé notuð á ofangreindan hátt.

Siðvandi

Sálfræðingurinn gerir sér grein fyrir að hann getur staðið frammi fyrir siðfræðilegum vanda. Sálfræðingurinn ber ábyrgð á að skilgreina siðvandann, leita ráða hjá starfsfélögum og/eða Sálfræðingafélaginu og upplýsa aðra viðkomandi um þær kröfur sem siðareglurnar setja starfsemi þeirra.

Samfella í þjónustunni

Hafi sálfræðingur tekið faglega ábyrgð á meðferð eða ráðgjöf og byrjað það verk, skal hann gera eins fullnægjandi samning og unnt er um lok verksins eð a tilvísun til annars hæfs aðila, áður en hann getur litið svo á að ábyrgð hans sé lokið. Sálfræðingi er ljós ábyrgðin sem hann hefur gagnvart fyrrverandi skjólstæðingi eftir að hinu formlega samstarfi er lokið.

Yfirfærð ábyrgð

Sálfræðingurinn ber ábyrgð á starfsmönnum sínum, aðstoðarmönnum, þeim sem hann handleiðir, og nemendum sínum með tilliti til vísindalegrar og faglegrar starfsemi og einnig að siðareglum sé fylgt. Sálfræðingur sem kennir öðrum sálfræðilegar aðferðir ber ábyrgð á að styrkleikum og veikleikum aðferðanna sé lýst og siðfræðilegum vanda sem af þeim getur hlotist.

2.4 Heiðarleiki

Sálfræðingurinn leggur sig fram um að vera heiðarlegur varðandi rannsóknir, kennslu, og við hagnýtingu sálfræðinnar. Þetta þýðir að sálfræðingurinn er heiðarlegur, óhlutdrægur og virðir aðila sem koma að máli/verkefni. Hann reynir að skilgreina skýrt og vel hlutverk sitt við þær margbreytilegu aðstæður sem hann vinnur við.

Heiðarleiki og nákvæmni

Sálfræðingurinn skýrir rétt frá starfsréttindum sínum, menntun, reynslu, hæfni og faglegum skoðunum sínum. Hann notar einungis þá starfsskilgreiningu, sem menntun, löggilding og embættisstaða veitir honum rétt til. Þegar sálfræðingurinn gefur út yfirlýsingar sem sálfræðingur skal hann vera málefnalegur og nákvæmur í framsetningu. Sálfræðingurinn veitir upplýsingar um sálfræði og sálfræðistörf á þann hátt að það valdi ekki misskilningi eða skaða fyrir sálfræðina almennt eða sálfræðistarfið. Sálfræðingurinn gefur upplýsingar um fjárhagslegar skuldbindingar skjólstæðings vegna samstarfsins. Hann metur það gaumgæfilega hvaða afleiðingar það getur haft að hann taki á móti gjöfum eða annarri þjónustu frá skjólstæðingi.

Hlutverkaárekstrar og misnotkun

Sálfræðingurinn leitast við að gera sér fulla grein fyrir þörfum sínum, viðhorfum, gildismati og hlutverki í samskiptum við skjólstæðing. Hann misnotar ekki vald sitt og stöðu með því að notfæra sér það að skjólstæðingurinn er honum háður og sýnir honum trúnað. Sálfræðingurinn forðast fagleg tengsl við skjólstæðing, sem hann hefur önnur tengsl eða vensl við, því þau gætu verið mjög truflandi og leitt til hagsmuna-árekstra og misnotkunar. Sálfræðingurinn gerir sér grein fyrir að tilfinningatengsl og kynhvötin geta bæði beint og óbeint haft áhrif á samskiptin við skjólstæðinginn. Sálfræðingurinn forðast að einkahagsmunir og kynferðismál trufli samskipti við skjólstæðinginn. Kynferðislegt samband milli sálfræðings og skjólstæðings á sér ekki stað.

3. Notkun siðareglnanna 

3.1 Siðferðileg leiðsögn sálfræðingsins

Siðareglunum er ætlað að vera sálfræðingnum siðferðilegur stuðningur við daglegt starf hans, við hugsun um skipulagningu og lausna siðferðilegra álitamála. Mikilvægt er að hann geri sér grein fyrir eftirfarandi:

· Ábyrgð sálfræðingsins verður að skoða í ljósi þeirra krafna sem verkefnið setur og þeirra tengsla sem eru mynduð við skjólstæðinginn.

· Mismunur á þekkingu og völdum mun alltaf hafa áhrif á samstarfið við skjólstæðinginn og starfsfélaga. Því stærri sem mismunurinn er því meiri er ábyrgð sálfræðingsins.

· Skilgreining einstakra hugtaka í siðareglunum verða að vera í stöðugri þróun innan starfsgreinarinnar.

Siðferðileg hugsun

Þegar sálfræðingurinn ákveður að taka að sér eða hafna verkefni þarf hann að velta fyrir sér siðferðilegum hliðum þess. Á þennan hátt styrkist og glöggvast hin nauðsynlega þekking á siðferðilegum álitamálum; siðferðisvitundin. Stöðug umhugsun um siðferðileg málefni eykur líkur á að sálfræðingurinn geri sér grein fyrir siðvanda.

Siðferðileg álitamál – siðferðisvandi

Sálfræðingurinn gerir sér grein fyrir að alltaf munu vera sterk tengsl á milli hinna fjögurra grundvallarreglna og þær geta stangast á. Slíkur siðferðilegur vandi krefst þess að sálfræðingurinn beiti dómgreind sinni og ræði við skjólstæðinga, starfsfélaga og vegi og meti siðareglur hverja á móti annarri. Oft mun vera nauðsynlegt að taka siðferðilegar ákvarðanir þótt ein siðaregla rekist á aðra, og láta hana stýra gerðum sínum. Í ákveðnu máli getur verið að forgangsraða verði einni siðareglu á undan annarri.

Siðferðileg ákvörðun

Sum siðferðileg vandamál geta legið ljóst fyrir og auðvelt að taka ákvörðun um hvað sé rétt að gera. Þegar siðareglur stangast á (siðferðilegur vandi/siðklípa) verður hin siðferðilega ákvörðun flóknari og krefst verulegrar umhugsunar. Eftirfarandi atriði geta verið til hjálpar þegar taka þarf erfiða siðferðilega ákvörðun:

Finna siðferðilegt þema sem á við og greina siðvandann.

Ákvarða lausnir eða gerðir.

Meta líkleg jákvæð og neikvæð áhrif sem fylgja siðferðisákvörðun, strax, til skamms tíma og til langs tíma, á þá sem eru aðilar að máli eða málið snertir.

Yfirvega siðareglur og þau verðmæti og gæði sem eru í húfi og velja hvað sé rétt að gera.

Taka ákvörðun um hvað er rétt að gera og meta afleiðingar af henni og að taka ábyrgð á þeim.

Meta árangur ákvörðunar og gjörða.

Sálfræðingurinn tekur ábyrgð á afleiðingunum og tekur að sér að reyna að bæta neikvæðar afleiðingar ef einhverjar eru, eða að breyta ákvörðuninni ef það sýnir sig að siðferðisvandinn er ekki leystur.

Sálfræðingar sem standa frammi fyrir erfiðu siðferðilegu mati eða ákvörðunum leita ráða hjá starfsfélögum eða ráðgefandi aðilum. Ákvörðunin er á ábyrgð hvers og eins sálfræðings en það að leita ráða gefur til kynna vakandi siðferðisvitund.

Sálfræðingur sem fær vitneskju um að starfsfélagi eigi í efiðleikum með að taka á siferðilegu álitamáli, býður aðstoð sína og stuðning við að fjalla um málið og taka siðferðilega ákvörðun.

3.2  Upplýsingar til almennings

Upplýsingar til almennings sem eru veittar um sérstaka sálfræðiþjónustu eiga að innihalda upplýsingar um siðferðilegar skyldur sálfræðinga sem tengjast hverju verkefni. Á sama hátt er rétt að upplýsa almenning um grundvallar siðareglur sálfræðinga sem eiga að tryggja fagleg og siðferðileg gæði starfsins. Sálfræðingar gera verkbjóðanda og/eða samstarfsaðila skýra grein fyrir þeim siðareglum sem gilda um sálfræðilega starfsemi. Þeir veita upplýsingar um möguleika á að kvarta undan sálfræðingum, um starfsreglur siðanefndar og að hvaða niðurstöðum siðanefnd getur komist.

3.3  Meðferð kvartana vegna sálfræðinga

Siðareglurnar eru nýttar til þess að taka afstöðu til kvartana á hendur sálfræðingum. Við mat siðanefndar á kvörtunum er tekið mið af því hvort sálfræðingurinn hafi velt fyrir sér siðferðilegri hlið málsins áður en hann tók siðferðilega ákvörðun. (sjá lið 3.1) Sálfræðingur sem fær vitneskju um að annar sálfræðingur fari ekki eftir siðareglunum ber að koma þeirri vitneskju til Sálfræðingafélagsins/siðanefndar.

Scroll to Top