Traust í samböndum

Flestir telja traust vera mjög mikilvægan þátt í sambandi.

Endurtekinn óheiðarleiki eins og lygar, framhjáhald og feluleikur veikir traust. Traust hefur svo bein áhrif á það hvort fólk greinir frá ánægju í samböndum. Sambandsánægja er hugtak sem mikið er rætt um í meðferðarvinnu með pör. Þeir sem telja sig geta treyst sínum maka mælast yfirleitt með hærri sambandsánægju. Þeir sem greina frá ánægju í sambandi sýna betri andlega og líkamlega líðan. Þeir eru einnig betur í stakk búnir til þess að takast á við krefjandi atburði sem koma upp í lífi þeirra eins og fjárhagserfiðleikar, atvinnumissir, flutningar eða barneignir.

 

Í samböndum er mikilvægt að deila veikleikum sínum og að geta sýnt samúð. Það veitir öðrum öryggi og sýnir að okkur er annt um aðra. Samkvæmt John Bowlby þá er það meðfætt hjá fólki að vilja hugsa um aðra og að vita til þess að aðrir hugsi um þeirra þarfir líka. Með tímanum myndast traust í sambandi þegar við tökum sigrum maka okkar sem okkar eigin og þegar þeirra óhamingja verður okkar. Það tekur tíma að mynda innileg tengsl við aðra.

Sjálfstraust hefur áhrif á traust milli aðila. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að sjálfstraust spili stórt hlutverk í ástarsamböndum. Að hve miklu leyti við getum haft áhrif á aðstæður í okkar lífi ræðst af sjálfstrausti okkar. Einstaklingar sem mælast með gott sjálfstraust gengur almennt betur í erfiðum aðstæðum. Hins vegar þeir sem mælast með lágt sjálfstraust eru líklegri til þess að vera óöryggir og gefast upp í krefjandi aðstæðum. Sjálfstraust getur haft áhrif á það hvort gott traust sé til staðar í sambandi. Ef einstaklingur er mjög óöruggur þá hefur það áhrif á samskipti. Bæði hvernig hann hagar sér og hvað hann segir. Samskiptavandi hjá pari er mjög algengt vandamál.

Að segja eitt en meina annað veikir traust. Það þarf ekki aðeins að vera óheiðarleiki heldur einnig eiga erfitt að koma orðum að einhverju og finnast því betra að sleppa því að segja eitthvað.
Ef svo maki fréttir af því á annan hátt hefur það áhrif á traust. Þetta getur verið eitthvað smáatriði fyrir einn en mikið mál fyrir annan. Þess vegna er mikilvægt að deila áhyggjum sínum og óöryggi með þeim sem okkur þykir vænt um.

 

Hvernig er þá best að mynda traust í sambandi? Meina það sem þú segir og segja það sem þú meinar. Það er alltaf hægt að vinna að breytingum í sambandi og með því bæta traust sem hefur verið brotið.

 

Hrefna Hrund Pétursdóttir og Ólöf Edda Guðjónsdóttir, sálfræðingar

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 12.05.2014

Rifrildi, hvað er til ráða?

Oft telur fólk að það sé merki um heilbrigt samband ef að par rífst aldrei. Öll pör rífast af og til og í heilbrigðum samböndum verða pör stundum reið við hvort annað. Það getur verið gott og þroskandi fyrir sambandið að takast á við ágreining. Ef að manneskja ræðir ekki við maka sinn þegar hún er ósátt þá getur það haft mun neikvæðari áhrif á sambandið heldur en tímabundna vanlíðanin sem kemur í kjölfar rifrildis. Það ber því að varast að láta pirring byggjast upp. Sem sagt þá getur samskiptaleysi haft verri afleiðingar en að ræða ágreining. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna um muninn á því hvernig hamingjusöm og óhamingjusöm pör rífast þá er tvennt sem stendur upp úr. Hamingjusöm pör nota annars vegar ákveðið samskiptamál og hins vegar ákveðnar aðferðir, til þess að koma í veg fyrir neikvæðan spíral.

 

Hér eru þrjú atriði sem er gott að hafa í huga við rifrildi:

 

Ræða málin rólega: Fyrsta skrefið er að ræða hvað gerðist til þess að skilja hvað fór úrskeiðis og hvernig ykkur báðum líður. Alveg sama hversu mikið þér finnst eitthvað vera maka þínum að kenna þá mun það ekki skila þér neinu að koma með ásakanir og gagnrýni. Byrjaðu frekar að ræða kvörtun með því að nota „ÉG“ í staðinn fyrir „ÞÚ“, til dæmis „mér finnst þú vera ósanngjarn“ frekar en að segja „þú ert ósanngjarn“. Þá eru minni líkur á að maki fari í vörn og taki kvörtuninni sem gagnrýni eða árás. Það er líklegra að hann hlusti á þig og geti sett sig í þín spor.

 

Tilraunir til sáttar: Við tökum oft ekki eftir þegar maki er að reyna að gera tilraunir til að laga vandamálið þar sem við erum föst í neikvæðni. Það er því mikilvægt að vera vakandi fyrir þessu og taka eftir þegar maki er að reyna að bæta ástandið. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að rifrildið fari úr böndunum. Tilraunir til sáttar er til dæmis að segja:

 

„Mér finnst eins og þú skiljir mig ekki núna..“

 

„Ég skil hvað þú meinar“

 

„Ég veit að þetta er ekki þér að kenna“

 

„Fyrirgefðu“

 

„Hvernig get ég lagað þetta?“

 

„Gerðu það, ekki lesa svona yfir mér. Geturðu sagt þetta við mig á annan hátt?“

 

„Ég sé að þetta var ekki rétt af mér“

 

Með því að bæta ykkur á þessu sviði og læra að taka við tilraunum til sáttar frá hvort öðru getið þið aukið hæfni ykkar til að leysa vandamál og aukið jákvætt viðhorf um hvort annað og sambandið.

 

Málamiðlun: Að finna málamiðlun er grundvallaratriði til þess að leysa ágreining. Ef við hugsum bara um að okkar lausn sé sú besta og sú eina þá erum við ekki að sýna maka virðingu og ást. Ef að maki er ekki sammála þér um bestu lausnina, þá getur verið betra að sætta sig við að einhverjum þörfum verði mætt frekar en engum. Hugsið um hvað þið viljið fá útúr ágreiningnum. Eftir að hafa rætt það þarf að skoða hvaða útkomu þið eruð tilbúin til að sætta ykkur við þannig að báðir aðilar fái einhverjar þarfir uppfylltar.

 

Það sem ber sérstaklega að varast í rifrildi er að móðga hvort annað, kalla hvort annað illum nöfnum og vera kaldhæðin/n.Í rifrildi þá viljum við að maki okkar hlusti á okkur og skilji afþví að við erum ósátt með eitthvað. Þegar maki þinn kvartar við þig skaltu líta á það sem tækifæri til þess að læra meira um maka þinn. Reynið að skilja sjónarhorn hvort annars þannig að þið getið bæði verið sátt.

 

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15.09.2014

Ertu til staðar fyrir mig?

Hverjum hlýnar ekki um hjartarætur þegar hann heyrir eldra par tala fallega um sambandið sitt eða sér eldra par leiðast úti? Fólk almennt hefur mikinn áhuga á samböndum. Oft kemur umræða hjá vinkonum eða vinum um sambandserfiðleika og það sem iðulega er þemað í þeim umræðum er að viðkomandi finnst makinn ekki vera til staðar fyrir sig. Mig vantar eitthvað frá maka mínum og mér finnst hann loka á mig. Við vitum að þegar við erum hamingjusöm í sambandinu okkar, finnst maki okkar skilja okkur og sýna okkur stuðning, þá finnum við fyrir öryggi. Það að geta treyst á maka gerir okkur sterkari. Niðurstöðum rannsókna um ástina ber saman um að ef fólk er í stöðugu og ástríku sambandi þá er það kjarni hamingju og heilbrigði. Það skiptir miklu máli fyrir heilsu einstaklinga að vera í hamingjusömu sambandi. Þetta er það sem flestir þrá, að tengjast einhverjum, finna að maki sé til staðar og finna fyrir stuðningi.

Hvernig getum við verið meira til staðar fyrir maka okkar? Svarið er að hlusta á hann og sýna áhuga. Þetta hljómar einfalt en getur oft á tíðum verið okkur erfitt. Ef þú hugsar út í það, þegar eitthvað bjátar á, eða þú ert ósáttur við eitthvað, hvað er það sem þú vilt í samræðum við  maka þinn? Að hann hlusti á þig og meðtaki það sem þú ert að segja, ekki satt? Þegar við finnum fyrir því að það sé hlustað á okkur og okkur sýndur skilningur þá verða öll vandamál einhvern veginn miklu auðveldari. Þegar maki kemur með vandamál sem hann vill ræða þá er oft munur á hvernig konur og karlar tækla það. Konum hættir til að taka vandamáli maka síns sem sínu eigin og gagnrýna maka sinn. Karlmenn fara beint í að leita lausna á vandanum. Hvorugt er hjálplegt og lætur makanum líða eins og það hafi hvorki verið hlustað á hann né að honum hafi verið sýndur skilningur. Mikilvægast er að skilningur komi á undan ráði. Við erum nefnilega almennt séð mjög góð í að búa til lausn á eigin vanda. Að hlusta og sýna skilning gerir töfra í sambandi.

Til þess að auka líkur á að þú getir verið til staðar fyrir maka þinn og hlustað á hann þá er góð venja að vita alltaf eitthvað um hvað er að gerast í lífi maka þíns þann daginn. Þegar þið hittist í dagslok er gott að ræða hvernig dagurinn var hjá ykkur og spyrja hvort annað.  Huggið hvort annað ef eitthvað bjátar á og hjálpið hvort öðru með erfiðar tilfinningar með því að ræða þær og sýna skilning. Allar tilfinningar eiga rétt á sér. Það mikilvægasta sem þú gerir fyrir sambandið þitt er að vera til staðar fyrir maka þinn.

 

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Að sýna hvort öðru umhyggju

Það er hægt að sýna maka sínum umhyggju á ótal vegu. Að kaupa gjöf handa maka sínum er einn valkostur en að sýna umhyggju þarf ekki að kosta peninga. Sú umhyggja er límið sem heldur pari saman. Oft er talað um að par eigi að vera til staðar fyrir hvort annað þegar eitthvað bjátar á en það er ekki síður mikilvægt þegar vel gengur. Það að taka sigrum maka síns sem sínum eigin og gleðjast með maka sínum hefur mikil áhrif á hamingju í sambandi. Það eru þessir litlu hlutir sem skipta máli.

 

Hvernig er hægt að sýna umhyggju í daglegum samskiptum? Á hverjum degi langar maka okkar að fá viðbrögð við því sem hann segir eða biður um og vonar að hann fái athygli, faðmlag, koss, hlátur, væntumþykju eða viðurkenningu.Við biðjum auk þess um það sama frá maka okkar. Ef maki okkar hefur áhuga á fjallgöngu, ræðir það við þig og biður þig um að koma með sér er hann ekki bara að ræða um áhugamál sitt heldur óskar hann eftir athygli og áhuga þínum og jafnvel þinni þátttöku. Þó að þú hafir ekki mikinn áhuga á að tala um fjallgöngu og þess þá heldur að fara í eina slíka þá er mikilvægt að þú áttir þig á að þetta skiptir maka þinn máli og að þú sýnir áhuga af virðingu við hann. Það að skilja hvort annað, bera virðingu fyrir hvort öðru og áhugamálum hvort annars eykur líkur á traustara og heilbrigðara sambandi.

 

Ef þú hunsar ítrekað þarfir maka þíns grefur þú undan trausti ykkar á milli. Ástæðan fyrir því að þú bregst ekki við þörfum hans þarf ekki að vera illgirni heldur ef til vill og mun líklega hugsunaleysi.

 

Þessar tilraunir til að mynda tengsl við maka þinn hafa mikil áhrif á sambandið. Rannsóknir hafa sýnt að pör sem huga að og bregðast við þörfum maka síns eru líklegri til að haldast saman en pör sem gera það ekki. Í amstri daglegs lífs geta merki frá maka okkar um að hann þarfnist athygli auðveldlega farið framhjá okkur eða hreinlega gleymst. Umhyggja felst í því að vera meðvitaður um og bera virðingu fyrir maka okkar, skoða hvað er hægt að vera þakklátur fyrir í sambandinu og hvernig hægt er að sýna það. Ef við sofnum á verðinum föllum við oftar í þá gryfju að taka ekki tillit til þarfa makans, einblínum á og leitum eftir mistökum hans og gagnrýnum í takti við það.

 

Það er auðvelt að huga að þessu því við höfum val. Vertu meðvitaður um mikilvægi þess að sýna umhyggju í daglegum samskiptum. Ef þú ert að horfa á uppáhalds þáttinn þinn og maki þinn leitar til þín, veldu þá frekar að vera til staðar fyrir hann. Þú getur vonandi horft á þáttinn síðar.

 

Hrefna Hrund Pétursdóttir sálfræðingur

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15.12.2014

Framhjáhald

Berglind starði á tölvuskjáinn. Hún trúði ekki því sem hún sá á skjánum. Hún vissi ekki hversu lengi hún hafði setið hreyfingalaus og starað á tölvupóstinn „Ég hlakka svo til að hitta þig á sunnudaginn, búin að sakna þín svo mikið“. Einhver kona sem hét Arna sendi þennan póst til mannsins hennar. Berglindu fannst heimurinn hrynja.

Ef þú hefur lent í því að maki þinn haldi framhjá þér þá veistu örugglega hvernig Berglindu líður. Framhjáhald getur leitt til mikils sársauka og oft er erfitt að sinna daglegu lífi. Það er eins og geisladiskur snúist á ógnahraða í huganum með hugsunum eins og hvernig þetta hafi getað gerst og minningar um framhjáhaldið geta verið ágengar. Þegar framhjáhald er uppgötvað þá yfirleitt hrindir það af stað sterkum og sársaukafullum tilfinningum fyrir báða aðila eins og reiði, svik, skömm, depurð og samviskubit. Ekki eru til neinar áreiðanlegar tölur hérlendis um tíðni framhjáhalds en tíðni framhjáhalds í Bandaríkjunum er um 40% fyrir karlmenn og 20% fyrir konur.
Það eru alls konar atburðir sem valda áföllum, frá náttúruhamförum eða flugslysi að atburðum eins og framhjáhaldi. Hvað gerir atburð að áfalli? Það er neikvæður atburður sem skaða hugmyndir okkar eða viðhorf um heiminn og fólk. Það er þegar við upplifum sársauka og ótta. Áfall ógnar trú okkar á „réttlátan heim“ og ógnar sjálfsmynd okkar. Það eyðileggur líka traust og hefur áhrif á öryggistilfinningu okkar. Atburðurinn raskar öllu lífi okkar, hugsunum, tilfinningum og hegðun. Munurinn á náttúruhamförum og framhjáhaldi er að það fyrra er eitthvað sem er óhjákvæmilegt og er ekki af manna völdum. Framhjáhald er eitthvað sem var gert af ásettu ráði, manneskjan sem átti að elska þig, vernda þig fyrir heiminum og koma fram við þig af virðingu og hreinskilni brást þér.

Skilningur á afleiðingum framhjáhalds getur hjálpað þér að skilja betur hvaða tilfinningar og hugsanir þú er að upplifa. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að fólki hættir til að þróa með sér þunglyndi og kvíða eftir svik eins og framhjáhald alveg eins og hættan er á eftir missi af ýmsum toga. Við framhjáhald missir fólk öryggi, drauma um sambandið og traust. Tilfinningar þínar geta breyst á hverri mínútu eða þér getur jafnvel liðið eins og þú finnir ekki neitt og jafnvel haldið að það sé eitthvað að þér að líða þannig. Niðurstöður rannsókna sýna að oft koma viðbrögð við áfalli fram sem dofi. Það er misjafnt hvernig fólk bregst við áföllum.

Algeng viðbrögð við framhjáhaldi

Algengar hugsanir:

  • Ætli maki minn hafi áður haldið framhjá mér?
  • Ég hef ekkert vald í sambandinu, ég get ekkert gert til að hafa áhrif á hvað gerist á milli okkar.
  • Hvað verður um okkur, mun ég enda ein/n?
  • Ætli allir aðrir hafi vitað þetta?

Algengar tilfinningar:

  • Reiði, depurð, kvíði
  • Niðurlæging og skömm
  • Þér líður eins og tilfinningar þínar heltaki þig og þú hafir enga stjórn á þér.

Algeng hegðun:

  • Þú ert ráðvilltur, til dæmis starir á vegginn tímunum saman og finnst þú ekki hafa neinn tilgang.
  • Þú leitar stöðugt að ástæðu fyrir gjörðum maka þíns, spyrð endurtekið „hvernig gastu gert þetta?“.
  • Þú dregur þig í hlé tilfinningalega og líkamlega, einangrar þig.

Það er ekki skrítið að upplifa til dæmis reiði eftir uppgötvun framhjáhalds. Maki þinn tók þá ákvörðun að halda framhjá, ljúga og jafnvel hætta á að þú fáir kynsjúkdóm. Oft upplifir fólk líka skömm, því finnst það sjálft hafa gert eitthvað rangt og þetta sé þeim að kenna að maki þeirra hélt framhjá. Það er ekki þér að kenna að maki þinn hafi haldið framhjá. Það getur vel verið að það sé vandamál í sambandinu ykkar en maki þinn tók ákvörðun um að halda framhjá og fólk verður að taka ábyrgð á sinni hegðun. Það á því líka við um maka þinn sem þarf að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Sá sem að hélt framhjá maka sínum á líklega líka erfitt með tilfinningar, er ráðvilltur og óviss um framtíðina, kvíðinn um sambandið, finnur fyrir einmanaleika, reiði, skömm, sektarkennd og sársauka.

Eftir vitneskju um framhjáhald getur það valdið ýmsum flækjum, eigum við að vera saman eða hætta saman? Ef við viljum vera saman á ég þá að kyssa maka minn eftir það sem hann gerði mér? Ættir þú að fara út að borða með vinum og láta eins og þið séuð hamingjusamt par? Hlutir sem þú tókst áður sem gefnu eru núna kannski orðnir óþægilegir eða ógeðslegir.

Hvað sem öllu öðru líður er framhjáhald stórmál. Það veldur áfalli. Þú átt kannski eftir að segja og gera hluti sem eru ekki líkir þér en það eru líka eðlileg viðbrögð við því sem gerðist.

Að jafna sig eftir framhjáhald er erfitt og langt ferli. Spurningin sem brennur ef til vill á þér núna er „Eigum við framtíð saman?“. Svarið við þessari spurningu er „kannski“. Um 60 til 75% para halda áfram að vera gift eftir að annar makinn kemst að framhjáhaldi hins, aðeins minnihluti skilur. Sum pör halda áfram að basla við að ná sér eftir framhjáhald og finna fyrir sársauka, engu trausti og eru óhamingjusöm. Hins vegar eru mörg pör sem taka ákvörðun um að vera áfram saman og ná að skapa ástríkt og öruggt samband. Það getur kostað vinnu að byggja sambandið upp á ný.

 

Heimildir:

Cano, A. og Leary, K. D. (2000). Infidelity and separations precipitate major depressive episodes and symptoms of nonspecific depression and anxiety. Journal of consulting and clinical psychology, 68, 774-781.

Gordon, K. C., Baucom, D. H. og Snyder, D. K. (2004). An integrative intervention for promoting recovery from extramarital affairs. Journal of marital and family therapy, 2, 213-231.

Snyder, D. K., Baucom, D. H. og Gordon, K. C. (2007). Getting past the affair. New York: The guilford press.

Snyder, D. K., Gordon, K, C. og Baucom, D. H. (2004). Treating affair couples: extending the written disclosure paradigm to relationship trauma. Clinical psychology: Science and practice, 2, 155-159.

Gott samband

Við erum oft spurðar að því hvað er gott samband. Sambönd eru eins ólík og þau eru mörg og það eru margir þættir sem gera samband gott. Hinsvegar skiptir samvinna gríðarlega miklu máli.

Það er hægt að segja að gott samband samanstandi af ást, trausti, skuldbindingu, sjálfsvirðingu og virðingu fyrir maka þínum. Í góðu sambandi fær maður einnig tækifæri til að vaxa sem einstaklingur og á sama tíma vaxa með maka sínum þannig að sambandið verður sterkara. Gott samband felur í sér meira en að vera ástfangin hvort öðru og eiga góðar stundir saman. Það felur einnig í sér hæfnina til að takast á við slæma tíma.

Anna og Davíð eiga tvö ung börn. Líf þeirra einkennist af öllu stressinu sem fylgir daglegu amstri og fjölskyldulífi. Þau gengu í gegnum mjög erfiðan tíma í 18 mánuði þegar Davíð missti vinnuna. Þetta hafði mikil áhrif á fjárhag fjölskyldunnar og líka sjálfsmat Davíðs. Anna þurfti að taka mikið af auka vöktum til þess að reyna að bæta fjárhaginn. Þrátt fyrir allt þetta erfiði náðu Anna og Davíð að komast í gegnum þessa erfiðleika án þess að það hefði veruleg áhrif á sambandið.

Þegar Anna og Davíð voru spurð hvernig þau gátu komist í gegnum þennan tíma og verið hamingjusöm í sambandinu sögðu þau að góð samskipti var það sem skipti mestu máli. Þau  töluðu um allt, aðstæðurnar, hvernig þeim leið og hvað þau voru að hugsa. Þó svo að þau hefðu stundum verið leið þá reyndu þau að hvetja hvort annað á uppbyggilegan hátt. Þegar það var mikil streita og þau voru pirruð létu þau hvort annað vita. Þegar þau fóru að rífast þá létu þau hvort annað vita að þau þyrftu smá pásu frá hvort öðru svo að rifrildið yrði ekki verra. Þau gerðu áætlun saman um hvernig þau gætu lifað fjárhagslega á meðan Davíð væri að leita að vinnu. Davíð setti sér markmið um atvinnuleit og í hverri viku ræddu Anna og Davíð um hvernig markmiðin gengu.

Við þekkjum örugglega öll einhvern sem virðist komast á stórkostlegan hátt í gegnum alls kyns neikvæðar aðstæður. Þó að það virðist sem það sé náttúrulegur hæfileiki fyrir marga þá hins vegar þurfa flestir að læra ákveðnar leiðir til að hjálpa sér að komast í gegnum þolraunir. Anna og Davíð áttuðu sig ekki einungis á því að þau þurftu að hugsa á jákvæðan hátt heldur einnig að þau þurftu að hegða sér á jákvæðan hátt. Þau skildu líka hvernig á að eiga í góðum samskiptum og setja sér skammtíma og langtíma markmið. Í gegnum alla erfiðleikana tóku þau lítil skref í áttina að stóra markmiðinu.

Samband krefst skuldbingar frá báðum aðilum til að læra um hvort annað og þroskast saman. Gott samband felur í sér að byggja jákvætt samstarf. Eina leiðin til þess er að eiga í góðum samskiptum. Margir halda að merki um gott og heilbrigt samband sé að rífast aldrei. Það er mjög eðlilegt að par rífist og sé ekki alltaf sammála. Það sem skiptir máli er hvernig við glímum við ósættin. Það er til dæmis góð leið að hlusta á maka þinn um ágreininginn, skiptast á að tala, tala um eitt vandamál í einu og ekki blanda einhverju gömlu inn í. Talaðu um vandamálið út frá sjálfri/um þér og um hvernig þér líður. Ef þú finnur fyrir mikilli reiði og telur að þú gætir sagt eitthvað særandi takið þá smá hlé frá hvort öðru, hittist svo þegar þið hafið jafnað ykkur og haldið þá áfram að ræða saman. Oft þarf maður að gera málamiðlun.

Gott samband er ekki eitthvað sem verður til á einni nóttu. Það krefst vinnu og oft hrasar maður á leiðinni. Það hins vegar gefur manni tækifæri til að læra.

Heimildir

Grein þýdd úr bókinni: Damani, S. og Clay, L. (2008). Resolving relationship difficulties with CBT. Oxfordshire: Blue stallion publication.

Gottman, J. M. og Notarius, C, I. (2000). Decade Review: Observing Marital Interaction. Journal of marriage and the family, 62, 927-947.

 

 

 

 

Góð ráð til að hafa í huga í sínu sambandi

Eyða tíma saman

Þú átt líklega minningu um frábæran tíma í byrjun sambandsins þar sem allt var nýtt og spennandi. Síðan þegar líður á sambandið fer daglegt amstur að hafa áhrif, börn, störf, áhugamál og aðrar skuldbindingar. Sambandið gleymist því oft. Það er hins vegar mjög mikilvægt að búa til tíma fyrir sambandið. Það getur því verið gott að skipuleggja eitt kvöld í viku sem er ykkar kvöld. Það þarf ekki endilega að gerast utan veggja heimilisins. Gott er að skipta ábyrgð um hver skipuleggur kvöldið. Einnig er sniðugt að finna áhugamál sem ykkur finnst báðum gaman af.

Góð samskipti

Góð samskipti er lykillinn að heilbrigðu sambandi. Gott er að minna sjálfan sig á að hlusta og veita því sem maki manns er að segja athygli. Einnig er sniðugt að spyrja maka í lok vinnudags hvernig dagurinn var og spjalla saman. Mikilvægt er að muna að maki manns les ekki hugsanir þó svo að þið séuð búin að vera saman í mörg ár. Því þarf að segja maka sínum frá líðan sinni og hugsunum. Þannig er hægt að koma í veg fyrir misskilning.

Hrósa

Ekki gleyma að hrósa maka þínum fyrir það sem hann gerir vel. Þá ertu að auka líkur á að hann gerir þetta aftur ásamt því að láta maka þínum líða vel með það sem hann gerði. Þú ert með þessu að auka jákvæðni í sambandinu.

Búast við að sambandið fari í gegnum góða og slæma tíma

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að í sambandi koma tímar sem eru slæmir og góðir. Það geta komið tímar þar sem maki þinn gengur í gegnum erfiðleika (atvinnumissir, heilsufarsleg vandamál, missir) og þú átt erfitt með að skilja hann. Það er mjög mismunandi hvernig fólk tekst á við stressandi aðstæður og því getur misskilningur fljótt breyst í pirring eða reiði. Því er mikilvægt að láta reiði ekki bitna á maka sínum og muna að þið eruð saman í liði. Vera hreinskilin og muna að þetta er ástand sem mun líða hjá.

Viðhalda innileika

Öll þurfum við snertingu. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að snerting eykur hormónið oxytocin sem hefur áhrif á það hvernig við myndum tengsl. Kynlíf er mikilvægt í samböndum en önnur snerting eins og að haldast í hendur, faðmast og kyssast er ekki síður mikilvæg.

 

Heimildir

Gottman, J. (2007). Why marriages succeed or fail and how to make yours last. London: Bloomsbury publishing plc.

Holt-Lunstad, J., Birmingham, W.A. og Light, K. C. (2008). Influence of a „warm touch“ support enhancement intervention among married couples on ambulatory blood pressure, oxytocin, alpha amylase, and cortisol. Psychomatic medicine, 70, 976-985.

Traust

Í ástarsamböndum er mikilvægt að finna fyrir hlýju, öryggi og ánægju. Margir þættir stuðla að góðu og traustu sambandi. Við komum inn í nýtt samband með okkar gildi, eiginleika, framtíðarplön og hugmyndir. Við þurfum svo að finna maka sem passar við okkar hugmyndir.

Flestir telja traust vera mjög mikilvægan þátt í sambandi. Endurtekinn óheiðarleiki eins og lygar, framhjáhald og feluleikur veikir traust. Traust hefur svo bein áhrif á það hvort fólk greinir frá ánægju í sínum samböndum. Sambandsánægja er hugtak sem mikið er rætt um í meðferðarvinnu með pör. Yfirleitt er það mælt hjá pörum í upphafi meðferðar með spurningalista. Þeir sem telja sig geta treyst sínum maka mælast yfirleitt með hærri sambandsánægju. Ánægja í sambandi hefur áhrif á aðra þætti í lífi fólks. Þeir sem greina frá ánægju í sambandi sýna betri andlega og líkamlega líðan. Þeir eru einnig betur í stakk búnir til þess að takast á við krefjandi atburði sem koma upp í lífi þeirra. Sem dæmi má nefna fjárhagserfiðleika, atvinnumissi, flutninga eða barneignir.

Hvað er það sem fær fólk til þess að treysta hvort öðru? Í samböndum er mikilvægt að deila veikleikum sínum og að geta sýnt samúð. Það veitir öðrum öryggi og sýnir að okkur er annt um aðra. Samkvæmt John Bowlby þá er það meðfætt hjá fólki að vilja hugsa um aðra og að vita til þess að aðrir hugsi um þeirra þarfir líka. Með tímanum myndast traust í sambandi þegar við tökum sigrum maka okkar sem okkar eigin og þegar þeirra óhamingja verður okkar. Það tekur tíma að mynda innileg tengsl við aðra. Ástarsambönd fara í gegnum vissa þróun frá því í byrjun þegar allt er nýtt og spennandi í það að verða stöðugra og í meiri rútínu. Þessi þróun stuðlar svo að hvort gott traust er á milli aðila eða ekki. Fyrri hegðun er góð spá fyrir seinni hegðun. Þannig ef saga er um óheiðarleika eða feluleik í sambandi þá veikist traustið og því meiri líkur á því að ánægja í sambandi verði minni.

Sjálfstraust hefur áhrif á traust milli aðila. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að sjálfstraust spili stórt hlutverk í ástarsamböndum. Að hve miklu leyti við getum haft áhrif á aðstæður í okkar lífi ræðst af sjálfstrausti okkar. Þeir sem teljast vera með gott sjálfstraust telja sig frekar geta haft stjórn á aðstæðum í sínu lífi hverjar sem þær eru. Einstaklingar sem mælast með gott sjálfstraust gengur almennt betur í erfiðum aðstæðum. Hins vegar þeir sem mælast með lágt sjálfstraust eru líklegri til þess að vera óöryggir í aðstæðum. Þeir eru ólíklegri til þess að fylgja á eftir sínum markmiðum og að gefast upp í krefjandi aðstæðum. Sjálfstraust getur haft áhrif á það hvort gott traust sé til staðar í sambandi. Ef einstaklingur er mjög óöruggur þá hefur það áhrif á hans samskipti. Bæði hvernig hann hagar sér og hvað hann segir. Samskiptavandi hjá pari er mjög algengt vandamál. Að segja eitt en meina annað veikir traust. Það þarf ekki aðeins að vera óheiðarleiki heldur einnig eiga erfitt að koma orðum að einhverju og finnast því betra að sleppa því að segja eitthvað. Ef svo maki fréttir af því á annan hátt hefur það áhrif á traust. Þetta getur verið eitthvað smáatriði fyrir einn en mikið mál fyrir annan. Þess vegna er mikilvægt að deila áhyggjum sínum og óöryggi með þeim sem okkur þykir vænt um. Góð samskipti skipta miklu máli.

Hvernig er þá best að mynda traust í sambandi? Meina það sem þú segir og segja það sem þú meinar. Allir kunna að meta heiðarleika og öll viljum við geta deilt sannleikanum með þeim sem okkur þykir vænt um. Einnig ef þú segist ætla að gera eitthvað standa við það. Eins og áður hefur komið fram þá skiptir máli að deila veikleikum sínum og sýna tilfinningar. Með því móti sýnum við traust og þá er makinn líklegri til þess að gera slíkt hið sama. Það er alltaf hægt að vinna að breytingum í sambandi og með því bæta traust sem hefur verið brotið. Þrátt fyrir að traust hafi dalað í sambandi þá alltaf hægt að vinna í því ef vilji beggja aðila er fyrir hendi.

 

Heimildir

Acevedo, B.P.  og Aron, A. (2009). Does a long – term  relastionship kill romantic love. Review of General Psychology, 13, 39–65.

Hazan, C. og Shaver, P. (1987). Romantic love conceptualized as an attachment process. Journal of Personality and Social Pcychology, 52, 511-524.

Jacobson, N. S. og Christensen, A. (1996). Acceptance and change in couple therapy. New York: W.W Norton company.

Áhrif skilnaðar

Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2009 enda um 36% hjónabanda með skilnaði á Íslandi. Það eru tvö orð sem segja má að lýsi skilnaði vel, áfall og sorg.

Oftast er talað um áfall sem viðbragð við hræðilegum atburði eins og til dæmis slysi, nauðgun eða náttúruhamförum. Áfall er því afleiðing óvenjumikillar streitu. Þó að skilnaður sé ekki fellibylur þá engu að síður getur hann verið mjög mikið áfall. Þegar við lendum í áfalli hugsum við oft „mun ég lifa þetta af?“. Mörgum líður eins og heimurinn hafi hrunið og það er erfitt að komast í gegnum vinnudaginn eða hafa orku til þess að sinna daglegu lífi. Oft er annar aðilinn í sambandinu búinn að taka ákvörðun um að enda sambandið án þess að hinn viti af því. Í sumum tilfellum hefur sá aðili fundið aðra manneskju og vill því ákaft enda sambandið til þess að hefja nýtt samband. Sá sem slítur sambandinu hefur oft verið búinn að hugsa um það í einhvern tíma og er búinn að sætta sig við sambandsslitin áður en hann ræðir það við maka sinn. Stundum tekur par sameiginlega ákvörðun um að þau henti ekki hvort öðru og ákveða að slíta sambandinu. Þetta er þó undantekning og oftast er það annar aðilinn í sambandinu sem vill enda sambandið og fer í gegnum þá angist hvernig hann geti slitið því. Þetta getur verið mikið áfall fyrir manneskjuna sem vildi ekki slíta sambandinu. Jafnvel grunaði hana ekki að hinn aðilinn væri að hugsa um skilnað og kom henni í opna skjöldu þegar hinn aðilinn sleit sambandinu.

Það er ástæða fyrir að við notum hugtakið ástarsorg þegar fólk lendir í áfallinu að slíta sambandi eða skilja. Sorg er skilgreind sem viðbrögð við missi og flestir upplifa sorg við að missa maka sinn, drauma og vonir. Það sem er öðruvísi við ástarsorg sem fylgir skilnaði en við fráfall maka eru viðbrögð almennings við sorginni. Fólk virðist oft hafa meiri skilning á að fólk syrgi látinn maka heldur en fyrrverandi maka sem er á lífi. Að upplifa ástarsorg er ofboðslega sársaukafullt en samt getum við ekki fundið neina áverka á líkama okkar.  Það var gerð mjög áhugaverð rannsókn árið 2011 um áhrif ástarsorgar. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að sama svæði í heilanum virkjast þegar fólk upplifir ástarsorg eða höfnun og þegar það brennir sig til dæmis á heitri hellu. Líkaminn gerir sem sagt ekki greinarmun á líkamlegum og andlegum sársauka.

Skilnaður leiðir til mikilla breytinga í lífi fólks. Það að sjá um öll verkefnin sem tengjast skilnaðinum getur leitt til kvíða, hræðslu og þunglyndis. Fólk upplifir missi. Að missa eignir, kennimark sem par og sem einstaklingur. Ef fólk á börn saman, missir það að vera ein heild, fjölskylda, og það hefur áhrif á allt daglegt líf. Lífstíll fólks breytist sem getur reynst erfitt. Fólk  þarf að endurskipuleggja allt lífið, búsetu, meta fjárhag, ef fólk á börn þá þarf að skoða hvernig foreldrahlutverkin eru, skipta eignum upp og þetta hefur áhrif á vinasambönd og tengdafjölskyldur.  Skilnaður er ein af mest streituvaldandi aðstæðum sem manneskja getur lent í. Þó að skilnaður virðist vera skynsamlegasta lausnin er hann nánast alltaf sársaukafullt ferli fyrir parið. Þar sem skilnaðarferlið er oftast streituvaldandi kemur það ekki á óvart að skilnaður veldur oft slæmri andlegri líðan. Streita er viðbragð líkamans við álagi. Streita getur birst á margan hátt svo sem erfiðleikar við að sofna eða vakna oft yfir nóttina, depurð, sektarkennd, kvíði, höfuðverkur, vöðvaspenna, pirringur, hræðsla, þreyta, grátur, fara í uppnám, draga sig í hlé frá öðrum og athöfnum. Þessi einkenni og tilfinningar eru eðlilegar við áfall og það er misjafnt hversu langan tíma það tekur fyrir fólk að vinna úr áfallinu. Parið sem er að skilja upplifir oft sársaukafullar og erfiðar tilfinningar á meðan það reynir að sinna daglegu lífi og hægt er að líkja þessu við rússíbanaferð. Einn daginn getur það upplifað mikla reiði en þann næsta finnst því það geta sigrað heiminn og komist í gegnum þessa þolraun. Það er eðlilegt að tilfinningar okkar sveiflist til og það sé dagamunur á okkur.

Núna getur verið að þú hugsir með þér „hvernig kemst ég í gegnum þessa sorg?“. Það er gott að hafa í huga að leyfa sér að syrgja. Reyndu að taka einn dag í einu og upplifa allar þessar tilfinningar sem fylgja sorginni. Leyfðu þér til dæmis að gráta. Fyrstu dagarnir eru oft erfiðastir og þá getur talist afrek að komast til dæmis fram úr rúminu. Mundu að hrósa þér fyrir afrekin, eins og að komast fram úr rúminu eða fara rétt út og anda að þér fersku lofti. Mikilvægt er að huga að grunnþörfunum, sofa, borða og fá einhverja hreyfingu. Leitaðu til vina eða fjölskyldu, það hjálpar oft að tala um sorgina við þá sem eru nánir manni.  Einnig er gott að gera það sem veitir manni ánægju, horfa til dæmis á gamanmynd, stunda áhugamál eða fara í göngutúr.

Heimildir

Amato, P.R. (2000). The consequences of divorce for adults and children. Journal of marriage and the family, 62, 1269-1287.

Chiriboga, D. A., Brierton, P., Krystal, S. og Pierce, R. (1982). Antecedents of symptom expression during marital separation. Journal of clinical psychology, 38, 732-741.

Chiriboga, D. A. og Krystal, S. (1985). An empirical taxonomy of symptom types among divorcing persons. Jouranl of clinical psychology, 41, 601-613.

Flaskerud, J. H. (2011). Heartbreak and physical pain linked in brain. Issues in mental health nursing, 32, 789-791.

Hackney, G. R. og Ribordy, D. (1980). An empirical investigation of emotional reactions to divorce. Journal of clinical psychology, 36, 105-110.

Snyder, D. K. og Halford, W. K. (2012). Evidence-based couple therapy, current status and future directions.  Journal of family therapy, 34, 229-249.